Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sigurður Ingi fjölgar leigubílaleyfum um hundrað

27.05.2022 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ætlar að fjölga atvinnuleyfum fyrir leigubifreiðaakstur á hundrað á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Er þessu ætlað að koma til móts við óskir í samfélaginu um meiri þjónustu á leigubifreiðamarkaði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá innviðaráðuneytinu. Sigurður Ingi hefur þegar staðfest breytingu á reglugerð um leigubifreiðar og mun breytingin taka gildi á næstu dögum.

Í kjölfar breytingarinnar verða atvinnuleyfin á svæðinu alls 680 og er um að ræða mestu fjölgun atvinnuleyfa á einu bretti frá því að lög um leigubifreiðar voru sett árið 2001. Fyrirhugað er að hefja úthlutun nýju leyfanna á næstu vikum.

Fjölga þurfi bílstjórum, ekki leyfum

RÚV greindi í síðasta mánuði frá ofangreindum áformum innviðaráðherra. Í samtali við fréttastofu sagði Daníel Orri Einarsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, að frekar væri þörf á fleiri bílstjórum en fleiri leyfum. Ekki hafi verið haft samráð við leigubílstjóra um breytingarnar og þær aldrei bornar undir þá. Vandinn snúist ekki um hámarksfjölda atvinnuleyfa heldur fjölda bílstjóra enda hafi verið flótti úr stéttinni í kórónuveirufaraldrinum.

Daníel sagði jafnframt að fjöldi bílstjóra hafi hætt í faraldrinum til að mega þiggja atvinnuleysisbætur, enda lítil eftirspurn eftir þjónustunni vegna samkomutakmarkana. Stjórnvöld hafi ekki hlustað á leigubílstjóra, sem hafi ekki getað fengið bætur fyrr en seint og síðar meir. Á sama tíma hafi svört skutlarastarfsemi fengið að halda áfram tiltölulega óáreitt.

„Vandinn liggur hjá stjórnvöldum, að hafa ekki hlustað á okkur. Við vorum með ákall til Samgöngustofu og félagsmálaráðuneytis en fengum engan hljómgrunn. Allir flúðu okkur og sögðu ekki hægt að hitta fólk vegna covid. Á meðan fækkaði okkur, sem gerði ekkert til upp á markaðinn að gera af því það var enga vinnu að fá enda vantaði fólki ekki leigubíla þá,“ sagði Daníel.