Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mikil umfjöllun um skotárásir leiði til fleiri árása

epa09977747 Activists rally demanding action on gun safety laws outside the US Capitol in Washington, DC, USA 26 May 2022. Activists gathered in the wake of the mass shooting at Robb Elementary in Uvalde, Texas and are demanding action on gun safety legislation.  EPA-EFE/SHAWN THEW / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Stjórnmálafræðingur segir að mikil fjölmiðlaumfjöllun um skotárásir virðist oft leiða af sér fleiri skotárásir. Átján ára piltur myrti minnst nítján börn og tvo kennara í grunnskóla í Texas í Bandaríkjunum á þriðjudag, viku eftir mannskæða skotárás í Buffalo.

Sunna Sasha Larosiliere, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í öryggis- og krísustjórnun, segir að einhvers konar bergmálsáhrif myndist í kjölfar mikillar fjölmiðlaathygli. „Rannsóknir sýna að því meiri umfjöllun sem árás fær, það leiði líklegast af sér aðra tvær til þrjár skotárásir í viðbót innan þrettán daga ramma,“ segir Sunna.

Hún bendir á að einungis hafi um það bil vika liðið frá skotárás í Buffalo, þar sem átján ára piltur skaut tíu manns til bana. Sú árás var sú mannskæðasta í Bandaríkjunum á þessu ári - þangað til á þriðjudag.

Sunna segir að almenningur í Bandaríkjunum vilji herta byssulöggjöf. „Það sorglega við þetta er að bandaríski almenningurinn þráir strangari byssulöggjöf,“ segir Sunna. „En viljinn er ekki til staðar hjá stjórnmálamönnum, það snýst allt um að ná endurkjöri og þessi NRA-lobbýismi er svo gríðarlega sterkur, og það er svo mikill peningur á bak við þetta.“ Hún segir litlar líkur á breytingum á skotvopnalöggjöfinni.

„Það eru líka þessi stjórnarskrárréttindi,“ segir Sunna. Réttur einstaklingsins sé mjög sterkur í bandarísku samfélagi. „Þetta á sér mjög sterkar rætur.“

Rætt var við Sunnu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.