Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Landsréttur sneri við dómi í Slayer-máli

27.05.2022 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Slayer
Landsréttur sneri í dag við Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra í máli umboðsfyrirtækis bandarísku þungarokkssveitarinnar Slayer gegn Live Events ehf., L Events ehv., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg.

Umboðsfyrirtækið, K2 Agency Limited, hafði krafist þess að fyrirtækin þrjú auk Guðmundar greiddu um sautján milljónir króna óskipt vegna vanefnda á greiðslu fyrir tónleika Slayer á Secret Solstice tónlistarhátíðinni árið 2018. Héraðsdómur féllst á þessa kröfu í fyrra.

Sýknudómur Landsréttar var tvíþættur. Annars voru áfrýjendurnir sýknaðir af kröfu hljómsveitarinnar um að orð framkvæmdastjóra Live Events í fjölmiðlum yrðu skilin svo að þeir gengjust í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. 

Landsrétti þótti ummælin þess eðlis að um almenna yfirlýsingu hafi verið að ræða. Ekki ótvíræðan vilja til loforðsgjafar. Þá hafi þau verið í andstöðu við ummæli Guðmundar, stjórnarmanns félagsins.

Hins vegar sýknaði Landsréttur L Events ehf., Lifandi Viðburði ehf., og Guðmund Hreiðarsson Viborg af kröfum K2 um skaðabætur. K2 hafði krafist skaðabóta og taldi að verðmætum hafi verið ráðstafað frá Solstice Production með saknæmum hætti áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Ráðstafanirnar hafi, samkvæmt K2, verið til hagsbóta fyrir áfrýjendur.

Að mati Landsréttar er ekki fullreynt hvort fjárkrafa á hendur Friðriki Ólafssyni, framkvæmdastjóra Solstice Productions, fæst greidd enda hafi umboðsskrifstofan unnið mál gegn forsvarsmanni Friðriki. Samkvæmt því mætti ganga á íbúð mannsins til að tryggja greiðslu skuldarinnar. Því voru aðstandendur hátíðarinnar sýknaðir að svo stöddu af kröfu um skaðabætur því ekki er enn ljóst hvort skuldin fáist greidd með öðrum hætti.

Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms í málinu gegn Friðriki árið 2021 þar sem honum var gert að greiða K2 Agency Limited um tuttugu milljónir króna í eftirstandandi þóknun. Friðrik fékk ekki heimild Hæstaréttar til að áfrýja þeim dómi.