Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Jón ítrekar samstöðu í ríkisstjórninni um brottvísanir

27.05.2022 - 13:10
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að enginn ráðherra í ríkisstjórninni hafi farið fram á að staðið verði að brottflutningi með öðrum hætti en hann hefur boðað. Mörg hundruð hafi þegar verið vísað frá.

Aldrei verið gerð athugasemd við vinnuferlið

Málefni flóttafólks, sem á að vísa úr landi á næstunni, voru til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Haukur Holm fréttamaður spurði Jón Gunnarsson hvort það væri rétt sem hann hefur haldið fram, að stjórnvöldum sé skylt að vísa fólkinu úr landi. „Hvert og einstakt tilvik er skoðað, fólk fær úrlausn sinna mála, annars vegar hjá Útlendingastofnun og getur síðan áfrýjað til kærunefndar útlendingamála, og þegar að þessi tvö stjórnsýslustig hafa afgreitt málin og synjað, þá á viðkomandi að fara úr landi,“ segir Jón.

„Og það hefur enginn í þessari ríkisstjórn - sem á hennar tíma mörg hundruð manns, fleiri hundruð manns hafa verið frávísað úr landi - það hefur aldrei verið gerð athugasemd um þetta vinnuferli við ríkisstjórnarborðið,“ segir Jón.

Nú gerði hins vegar samráðherra þinn athugasemdir við ummæli þín í Kastljósi og sagði að þú hafir farið með rangt mál. Sagðirðu ósatt? „Nei, þetta voru hans orð þá, en eina sem ég sagði þar var að það væri samstaða innan ríkisstjórnarinnar að vinna eftir þeim verkferlum sem unnið hefur verið eftir. Það hefur enginn borið upp breytingatillögu við mig um að gera þetta með öðrum hætti,“ segir Jón. „Og það kalla ég samstöðu í ríkisstjórninni.“

Kannast ekki við töluna 300

Mikið hefur verið fjallað um málefni þeirra hátt í 300 umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem vísa á úr landi.

Þessi hópur, það var talað um 300 manns. Verður þessum hópi vísað frá landi á næstunni? „Það er mikilvægt að hafa í huga varðandi þessar tölur, það hefur aldrei komið þessi tala 300, allavega ekki til mín, ég held að þetta hafi verið með einhverri svona á ákveðinni heildsöluálagningu í fjölmiðlum, en þessi tala er auðvitað síbreytileg,“ segir Jón.

Jón sagði í viðtali við RÚV síðasta föstudag að þetta væri um 270 manna hópur

Stendur ekki til að senda barnafjölskyldur til Grikklands

Hann segir að ekki standi til að senda barnafjölskyldur til Grikklands. Það er í ósamræmi við upplýsingar sem fréttastofa fékk frá Ríkislögreglustjóra, en samkvæmt þeim átti að vísa 71 til Grikklands. Inni í þeirri tölu voru tíu fjölskyldur en eru nú þrjár, þar sem hinar sjö fá efnislega meðferð síns máls vegna þess að þær hafa verið lengur en eitt ár á landinu. Nú segir Jón að þetta standi ekki til.

„Það er mikilvægt að hafa það í huga að það er ekki verið að fara að senda neinar fjölskyldur til Grikklands,“ segir Jón.

Hópflutningur flóttamanna af landi brott standi heldur ekki til. „Það er enginn hópflutningur hérna fyrirhugaður. Nú er komið tækifæri vegna breyttra aðstæðna í móttökulandi, sem hafa breytt sínum skilyrðum eftir covid, og þá fer þessi vinna bara af stað eins og vera ber,“ segir Jón.

Hægt er að horfa á viðtal við Jón hér að ofan.