Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Evrópusambandið undirbýr viðbrögð við apabólunni

epa09968980 A person walks past the UK Health Security Agency (UKHSA) in London, Britain, 23 May 2022. A guidance by the UKHSA recommends that anyone who has had direct contact with a confirmed monkeypox case or a high-risk environmental contact should isolate for 21 days. The UK has confirmed 20 cases since 06 May.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópusambandið hefur hafið undirbúning að kaupum á bóluefnum og lyfjum gegn apabólu. Fulltrúi framkvæmdastjórnar sambandsins greindi fréttaritara AFP-fréttaveitunnar frá þeirri fyrirætlan í gær.

Stefan De Keersmaecker, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar í heilbrigðismálum kveðst vonast til þess að unnt verði að hefja bólusetningu og meðferð innan skamms.

Ríki sambandsins segir hann að muni á næstu dögum ákveða hvernig farið verði að. De Keersmaecker áréttaði að smithæfni og áhætta af apabólu væri ekki sambærileg við COVID-19. 

„Bóluefnið gegn apabólu verður aðeins ætlað skýrt afmörkuðum hópum,“ segir De Keersmaecker. Í tilkynningu Sóttvarnastofnunar Evrópu sem gefin var út í gær segir að þótt tilfellum apabólu hafi fjölgað fimmfalt á einni viku sé hætta á smiti afar takmörkuð. 

Apabóla hefur löngum verið landlæg í Vestur- og Mið-Afríku. Nú hafa komið upp tilfelli í næstum tuttugu löndum víðs vegar um heim. Þeirra á meðal eru Bandaríkin, Ástralía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og ellefu ríki Evrópusambandsins.