„Þannig á engu barni að líða“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þannig á engu barni að líða“

26.05.2022 - 12:52

Höfundar

Uppistandarinn og pólitíkusinn Jón Gnarr flutti erindi á ráðstefnu um ágæti raunfærnimats. Í skólakerfinu fékk hann sjálfur litla aðstoð og fannst skilaboðin hljóða svo að hann væri vitlaus. Honum finnst að aldrei eigi að dæma börn úr leik líkt og samfélaginu hættir gjarnan til, heldur horfa til styrkleika þeirra.

Fimmtudaginn 19. maí hittust sérfræðingar frá 27 löndum í hæfnisþróun hér á landi til að ræða hvernig raunfærnimat getur nýst við að takast á við hraðar breytingar á vinnumarkaði. Slíkt mat byggir á þeirri hugmynd að nám fari fram við margs konar aðstæður, í ólíku samhengi og ekki eingöngu í skóla. Jón Gnarr, uppistandari og pólitíkus, var einn þeirra sem hélt erindi á ráðstefnunni um eigin reynslu á raunfærnimati.  

Styrkleikar fólks metnir á nýjan hátt  

„Ég var að blaðra þarna,“ segir Jón Gnarr í samtali við þær Hrafnhildi Halldórsdóttur og Guðrúnu Dís Emilsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hann segir raunfærnimat vera leið til að meta getu og menntun einstaklinga út frá óhefðbundnum leiðum. „Stundum er þetta oft þannig að hæfileikar okkar og viðurkenningar liggja einhvers staðar í skúffum og við jafnvel munum ekki eftir því að hafa klárað þetta og hitt,“ segir Jón. „Raunfærnimat er leið til að draga þetta saman og sýna þér styrkleika þína á nýjan hátt, sem þú hafðir ekki séð áður.“ 

Í þessu sé einnig falið ákveðið stöðumat þar sem hæfileikar fólks, menntun og skilningur á tilteknu viðfangsefni eru metin til prófs. „Þetta getur auðveldað fólki að sækja um eða fá ákveðin störf, sem þau hefðu einhvers forms vegna ekki fengið áður.“ Það sé eitt að heyra og lesa um hluti en miklu dýpri reynsla fylgi því að framkvæma þá. „Oft er fólk að gera hluti úti um samfélagið sem það hefur kannski ekki skilgreinda menntun til en hefur færnina og hæfileikann sem er oft til jafns við þau sem hafa menntunina,“ segir Jón og bætir við að þetta sé gríðarlega mikilvægt þegar kemur að því að meta hæfni og starfsgetu fólks á borð við innflytjendur. 

„Þetta var ofboðslega niðurlægjandi“ 

„Þetta er frábært kerfi og gjörsamlega bjargaði mér,“ segir Jón sem var með þeim fyrstu sem tóku þátt í verkefninu. Árið 2004 var honum boðið að gerast tilraunadýr og vissi hann í raun ekkert út í hvað stefndi. Tekin voru saman öll gögn um hans störf, menntun, námskeið og annað slíkt sem hann hafði setið og reiknað til jafngildis við einingar í framhaldsskóla. „Þarna fór ég að fá einhverja yfirsýn yfir eitthvað sem var bara í einhverjum óskilgreindum hrúgum í huga mér og lífi,“ segir Jón og bætir við að verkefnið hafi einnig hjálpað honum tilfinningalega. „Margt af þessu var tengt mikilli vanlíðan og sjálfsásökunum.“ 

Jón talaði um það á ráðstefnunni að vegna lesblindu sinnar hefði hann alla tíð átt erfitt með að skrifa. „Ég bjó úti í Svíþjóð og lærði að tala alveg rosalega fína sænsku, svo kom ég heim og fór í stöðupróf í MH því mig langaði að fá þetta metið til eininga,“ segir hann. „En það var bara prófað í skriflegum hluta, og mér var ekkert gefinn neinn afsláttur til þess. Ég fékk núll, samt talaði ég reiprennandi sænsku,“ segir hann. „Þetta var ofboðslega niðurlægjandi.“ 

Skapandi hugsun lykilatriði 

Með raunmatinu fékk Jón hjálp við að samræma reynslu sína, styrk og menntun og varð það til þess að hann gat sótt sér frekari menntun. Fyrir ári síðan útskrifaðist Jón með M.F.A.-gráðu í fínum listum frá Listaháskóla Íslands. „Spyrjið mig eitthvað um fínar listir, ég get svarað því.“ Þannig hafði raunfærnimatið bein og óbein áhrif á að hann gæti menntað sig frekar, líkt og hann hafði oft látið sig dreyma um.  

„Samt er ég ekki að hallmæla skólakerfinu okkar, það er mjög gott að mjög mörgu leyti,“ segir hann. „En mér finnst vanta valmöguleika fyrir fólk oft.“ Það sé lítið gefið fyrir ákveðna hluti og meira lagt upp úr öðrum sem skipta kannski ekki endilega höfuðmáli. „Ég hef oft talað um þetta með tilliti til skapandi hugsunar, sem er lykilatriði í öllu,“ segir hann og tekur sem dæmi að í atvinnu og samskiptum þurfi að hafa skapandi hugsun og kunna að nota hana. 

Líkir menntun við Subway-bát 

Samkvæmt Jóni stendur Ísland ágætlega miðað við önnur lönd þegar kemur að möguleikum fólks til að ná markmiðum sínum. „En mér finnst alltaf fínt að benda á þetta. Það eru oft kerfislægir flöskuhálsar, það er eitthvað kerfi sem segir nei.“ Jón segist sjá bæði formlega og óformlega menntun fyrir sér sem Subway-bát. „Þú getur bara valið hvað þú vilt fá, þarft ekki að fá bara standard loku sem er vinsælust, þú mátt velja,“ segir hann. „Það er ekki bara bátur dagsins á alla.“ 

Sjálfur fór Jón fyrst að reyna á sig gagnvart námi ellefu ára og fann þá sérstaklega fyrir ómöguleika gagnvart stærðfræði. Þegar hann fluttist yfir í Réttarholtskóla var algjörlega kippt undan honum fótunum og hann réði engan veginn við almennt skólakerfi. „Sem betur fer var eitthvað af góðu fólki sem klappaði mér á öxlina,“ segir hann en fékk enga sérstaka hjálp. Jón gerði sér ekki grein fyrir því að hann væri með þroskaröskun og þrátt fyrir að enginn segði það beint út fannst honum skilaboðin til sín vera að hann væri vitlaus. „En þannig finnst mér ekki að neinu barni eigi að líða.“  

Jóni finnst að krakkar eigi alltaf að fá að njóta vafans. „Við eigum ekki, eins og okkur gjarna hættir til í samfélagi okkar, að dæma krakka úr leik einhverra hluta vegna. Það finnst mér rosalega sárt að heyra,“ segir Jón. Honum hafa verið sérstaklega hugleikin málefni innflytjenda barna sem jafnvel eru þrí- eða fjórtyngd. „Mér finnst að við mættum gera meira til að komast til móts við þessa krakka,“ segir hann og vill að frekar sé horft til styrkleika þeirra fremur en veikleika.  

„Mér finnst þetta frábært mál, raunfærnimat. Að meta raunverulega færni fólks til þess að blómstra og láta gott af sér leiða og gera gagn,“ segir Jón og bendir á að auðvelt sé að verða sér úti um upplýsingar á netinu sé orðið „raunfærnimat“ slegið inn.  

Rætt var við Jón Gnarr í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Menntamál

„Verð skarpari en missi húmorinn á lyfjum“

Leiklist

Varð fyrir andlegri vakningu í íþróttahúsinu á Núpi

Menningarefni

„Svona missir fólk vitið“