Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lét höggin dynja á vagnstjóra þegar til Akureyrar kom

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi Eystra rannsakar líkamsárás strætófarþega á bílstjóra strætisvagnsins fyrr í þessum mánuði. Farþegi í strætisvagni á leið frá Reykjavík til Akureyrar gekk í skrokk á vagnstjóranum þegar til Akureyrar var komið, kýldi hann ítrekað og réðst svo á hann aftur skömmu síðar við annan mann. Fréttablaðið greinir frá.

Í frétt blaðsins segir að tveir farþegar og ferðafélagar hafi verið til vandræða stóran hluta ferðarinnar, einkum þó seinni hluta hennar. Annar þeirra var skilinn eftir á Blönduósi þegar hann skilaði sér ekki úr sjoppunni í tæka tíð þrátt fyrir eftirrekstur, þar sem vagnstjórinn þurfti að halda strangri áætlun. Fékk hann grænt ljós á þessa ákvörðun frá stjórnstöð Strætó.

Beið mannsins í Varmahlíð að beiðni lögreglu

Þetta mislíkaði félaga mannsins sem skilinn var eftir og heimtaði að bílstjórinn stöðvaði vagninn, en þeirri kröfu var ekki sinnt. Vagnstjórin beið félagans hins vegar í Varmahlíð að beiðni lögreglunnar á Blönduósi, sem hafði séð aumur á strandaglópnum og skutlaðist með hann í Varmahlíð, enda verið á leið þangað hvort eð er.

Bílstjórinn hefur ekki tölu á höggunum og kominn í veikindaleyfi

Það sem eftir var leiðarinnar færðust þeir félagar í aukana og á endastöð á Akureyri réðst félagi strandaglópsins á bílstjórann og lét höggin dynja á honum. Fram kemur að bílstjórinn sé í minnst veggja vikna veikindaleyfi eftir árásina og finni fyrir mikilli vanlíðan og svima.

Segist hann ekki vita hversu oft maðurinn hafi kýlt hann, en höggin hafi verið mörg. Honum hafi ekki verið heimilt að slá til baka, en þó reynt að verja sig eftir mætti. Barsmíðunum linnti að lokum, en skömmu hafi árásarmaðurinn birst á nýjaleik með félaga sinn sér til fulltingis og þeir ráðist á hann báðir saman. Enginn úr hópi annarra farþega reyndi að skakka leikinn, að sögn bílstjórans.

Fréttablaðið fékk það staðfest hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra að málið sé þar til rannsóknar. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV