Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Furðar sig á afskiptum lögreglu af ferðum Strætó

26.05.2022 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Strætisvagnstjóri hlaut mikla áverka þegar tveir farþegar gengu í skrokk á honum á Akureyri í síðustu viku. Öðrum þeirra hafði verið vísað út úr vagninum vegna brota á reglum en var hleypt aftur í vagninn að beiðni lögreglu. 

Skilur manninn eftir á Blönduósi 

Strætisvagninn var á leið frá Reykjavík til Akureyrar. Á leiðinin norður var tekið stutt stopp á Blönduósi en þá höfðu tveir farþegar vagnsins verið til mikilla vandræða. Guðmundur Heiðar Helgason er upplýsingafulltrúi Strætó.

„Og þá skilst mér að það sé vandamál með annan manninn. Hann ætlar bara að fá sér að borða og er eiginlega að krefjast þess að vagninn bíði. Vagnstjórinn hafði rekið á eftir á honum og segir svo að lokum: Heyrðu ég er með áætlun, ég er með fullt af fólki hérna og ég verð farinn eftir eina mínútu ef þú kemur ekki. Svo á endanfum fer það svo að hann fer og skilur manninn eftir.“

Enn frá vinnu vegna áverka 

Skömmu síðar fær stjórnstöð Strætó símhringingu frá lögreglunni sem segist vera með mann aftur í lögreglubílnum og að vagninn eigi vinsamlegast að bíða eftir honum við Varmahlíð.

„Stjórnstöðin okkar og varðstjórinn ákveða bara að fara eftir því sem lögregla biður um. Svo endar þetta á því þegar komið er til Akureyrar að gengið er í skrokk á starfsmanninum.“

Guðmundur segir að maðurinn hafi hlotið mikla áverka.„Það blæddi mikið úr honum og hann hefur fengið að ég held heilahristing og hefur bara verið frá vinnu núna í heila viku og það er óvist hvenær hann kemur til baka.“

Um tuttugu farþegar urðu vitni að árásinni en maðurinn kallaði sjálfur eftir aðstoð lögreglu. Hann hefur kært líkamsárásina til Lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem hefur málið til rannsóknar. 

Upplýsingafulltrúi Strætó
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó

 

Hyggjast kalla eftir svörum lögreglunnar

- Eru fordæmi fyrir þessu, að lögreglan hafi afskipti af ferðum strætó?

„Við höfum mjög oft þurft að leita til lögreglu ef erfiðir einstaklingar eru um borð í vagninum og lögreglan hefur verið fljót að bregðast við því. Við sömuleiðis reynum að aðstoða lögregluna eftir bestu getu en við höfum ekki neina reynslu af því að lögreglan sé að biðja vagninn um að stoppa því það er verið að skutla einhverjum manni sem var að haga sér eitthvað óeðlilega og brjóta reglur. Mér finnst það vekja upp ákveðnar spurningar sem að mætti endilega skoða betur.“

- Ætlið þið að kalla eftir einhvejrum svörum frá lögreglunni? 

„Já við ætlum að reyna að senda einhverjar fyrirspurnir varðandi þetta og skoða málin bara hvrnig þetta kemur til. Þetta vekur upp undrun hjá okkur og við viljum bara fá að kafa aðeins dýpra í það.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV