Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm tíma fundur Finna, Svía og Tyrkja í Ankara

26.05.2022 - 00:39
epa09975029 A handout photo made available by the Turkish President Press Office shows, Turkish presidential spokesperson Ibrahim Kalin (5-L) with the Turkish delegations and Swedish Nato delegations during their meeting in Ankara, Turkey, 25 May 2022. Turkish President Recep Tayyip Erdogan had said on 21 May that Turkey would not look 'positively' on Sweden and Finland's NATO bids unless its terror-related concerns.  EPA-EFE/TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE
Sendinefndir Finna og Svía áttu í dag fimm tíma fund með fulltrúum Tyrklandsstjórnar í forsetahöllinni Ankara, höfuðborg Tyrklands. Fundarefnið var umsókn Norðurlandanna tveggja um aðild að Atlantshafsbandalaginu, NATO, og andstaða Tyrkja við inngöngu þeirra.

Ibrahim Kalin, ráðgjafi Erdogans Tyrklandsforseta, sagði á fréttafundi að eiginlegt samkomulag hefði ekki náðst á fundinum, en þar hefði þó ýmislegt jákvætt komið fram, meðal annars um vopnaútflutning Svía til Tyrklands.

Þó sé ljóst að Tyrkir muni standa í vegi fyrir inngöngu landanna þar til þau uppfylli þau skilyrði sem Tyrklandsstjórn hafi sett, einkum og sér í lagi um hvers kyns stuðning við Verkamannaflokk Kúrda, PKK, og fleiri samtök Kúrda sem hún skilgreinir sem hryðjuverkasamtök.

Framsal hryðjuverkamanna og aflétting viðskiptabanns

Tyrkir krefjast framsals nokkurra meintra kúrdískra hryðjuverkamanna sem fengið hafa skjól í löndunum, aðallega Svíþjóð. Þá skuli löndin láta af öllum efnahagslegum stuðningi við PKK og Svíar verða að hætta að sjá samtökunum fyrir vopnum, en Tyrkir fullyrða að þeir sjái Kúrdum fyrir drónum og skriðdrekavarnarflaugum.

Þá krefjast þeir þess að löndin tvö aflétti þeim refsiaðgerðum sem innleiddar voru gegn Tyrkjum eftir að þeir réðust inn í Sýrland til að herja þar á Kúrda. Þær aðgerðir fela meðal annars í sér bann við vopnasölu til Tyrklands. Viðræðunum verður fram haldið.