Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Endursending flóttabarna til Grikklands í bága við lög

epa08112466 Children help with the laundry in the refugee camp of Moria, on Lesvos island, Greece, 08 January 2020. In the camp, meant to host 2500 migrants and refugees, nowdays are living more than 18,000 people in poor conditions as the temperatures are around six degrees Celsius.  EPA-EFE/ORESTIS PANAGIOTOU  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Flóttabörnum sem vísað er til Grikklands bíður líf sem er engu barni bjóðandi, samkvæmt nýrri skýrslu Rauða kross Íslands. Endursending til Grikklands gangi gegn hagsmunum flóttabarna, og brjóti þar með í bága við lög.

Samkvæmt nýútgefinni skýrslu Rauða kross Íslands hefur flóttafólk í Grikklandi takmarkað aðgengi að húsnæði, heilbrigðisþjónustu, menntun, félagslegri aðstoð og atvinnu.

Fyrirhugað er að vísa um 300 hælisleitendum úr landi nú þegar brottvísanir eru hafnar á ný eftir kórónuveirufaraldurinn. Flestir verða sendir til Grikklands, þar á meðal barnafjölskyldur. 

Gatan bíður þeirra í Grikklandi

Lögum samkvæmt er íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa það sem barni er fyrir bestu í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Atli Viðar Thorstensen, sviðstjóri hjá Rauða krossinum, segir að endursending flóttabarna til Grikklands geti tæpast verið í samræmi við lög. Í Grikklandi sé heilsu flóttabarna og velferð stefnt í mikla hættu, og yfirgnæfandi líkur á að þau verði heimilislaus eða búi við óviðunandi aðstæður.

„Búseta á götunni er það sem að bíður þeirra oft á tíðum og aðgengi að menntun er verulega skert, þannig að við teljum það sannarlega ekki þjóna hagsmunum barna.“ 

Standa ekki jafnfætis Grikkjum

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í vikunni að fólk sem fái alþjóðlega vernd á Grikklandi búi við sömu skilyrði og Grikkir. „Það getur farið inn á vinnumarkaðinn, það býr við sömu aðstæður og Grikkir búa við,“ sagði Jón. Atli Viðar segir þetta ekki alls kostar rétt. „Ekki samkvæmt okkar mati og ekki samkvæmt áreiðanlegum skýrslum um ástandið í Grikklandi, og ekki í samræmi við frásagnir þeirra sem hafa komið hingað frá Grikklandi,“ segir Atli Viðar.

Réttindi flóttafólks séu tryggð í orði en ekki á borði. „Þannig að við getum alveg hafnað því að staða flóttafólks á Grikklandi sé jafnfætis hinum almenna Grikkja,“ segir Atli Viðar. 

Sem dæmi um ólíkan aðbúnað má nefna að grískir bankar hafa ítrekað synjað flóttafólki um að fá bankareikning, sem kemur í veg fyrir að þau geti tekið á móti launagreiðslum, og kemur þar með í veg fyrir að þau geti fengið vinnu.