Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Byrjaði alla daga með kvíðahnút í maganum

Mynd: - / Íslenska óperan

Byrjaði alla daga með kvíðahnút í maganum

25.05.2022 - 16:34

Höfundar

„Þetta var bara hundleiðinlegt, ég henti þessu öllu og byrjaði upp á nýtt,“ segir rithöfundurinn Gunnar Helgason um verk í bígerð. Honum þótti það hvorki spennandi né fyndið - eins og barnabækur verða að vera. Út á við reynir hann að vera ekki pólitískur eða reiður en þarna var hann að blanda Pútín við frásögnina og orðinn alveg brjálaður.

Undanfarinn áratug hefur Gunnar Helgason, rithöfundur, helgað feril sinn skrifum metnaðarfullra barnabóka. Nú er komin út ný bók um grallarann Stellu, Hanni Granni dansari, en Gunnar hafði lofað að skrifa ekki fleiri bækur í þeirri seríu.  

Vildi ekki setja upp gleraugun af ótta við stríðni 

Svo virðist sem Gunnar sé alltaf að gefa út nýja og nýja bók enda eru ekki nema örfáir mánuðir frá því að sú síðasta kom út rétt fyrir jól. „Ég held að fjölmiðlafólk sé líka orðið þreytt á því,“ segir Gunnar í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hann segist þó ekki reyna að kæfa niður hugmyndir sínar heldur hugsi hann látlaust um þær. „Þetta er bara vinnan, og ég held að allir hugsi rosalega mikið um vinnuna sína. Ég veit ekki hvort þetta sé hollt en þannig er það bara,“ segir hann og bætir við að ekki eigi hann barnabörn til að dreifa huganum.  

Þeir bræður, Gunnar og Ásmundur, hafa alla tíð verið miklir lestrarhestar. Svo miklir að á tímabili leist móður þeirra ekkert á blikuna og faldi allar bækurnar niðri í kjallara svo þeir myndu leika sér meira úti. „Ási kannast ekkert við þetta en ég man mjög skýrt eftir þessu,“ segir Gunnar. „Og það var verkefni að fara niður í kjallara með bækurnar, tvær ferðir fyrir mömmu og meðvituð ákvörðun, þetta var ekki eitthvað sem henni datt bara í hug. Henni fannst greinilega að við værum að lesa of mikið.“  

Sjálfur hafi hann þó ekki lært að lesa fyrr en sjö ára gamall því seint uppgötvaðist að þeir bræður þyrftu á gleraugum að halda. „Ég man þegar við fórum að velja gleraugun. Þá fórum við og völdum ljótustu gleraugun í búðinni. Það var hræðilegt,“ segir Gunnar. „En þetta var bara það sem mamma og pabbi höfðu efni á.“ Umgjarðirnar voru hálfgegnsæjar úr bleiku marmaramunstri. „Þegar við fluttum okkur til og byrjuðum í nýjum skóla þá vildum við ekki setja upp gleraugun af ótta við að það yrði gert grín að okkur.“ Kennarinn og krakkarnir hafi reynt að hjálpa þeim að ná sjálfstrausti en Gunnar sat á fremsta bekk til að koma í veg fyrir að nokkur sæi hann. „Ég opnaði gleraugnahulstrið og kennarinn, þessi besta kona í heimi, fór að hlæja. Niðurstaðan var að það voru keypt ný gleraugu.“ 

Vantar fleiri og skemmtilegri bækur 

Gunnar brennur fyrir að hvetja börn til lestrar. „Þetta er pínu vesen, krakkarnir okkar eru að fjarlægjast lestur,“ segir hann. „Hljóðbókin er að koma að einhverju leyti inn og ég átta mig ekkert á því hvort það sé sambærilegt að nota eyrun eða augun. Skiptir það einhverju máli?“ spyr hann. Hann segir að svo lengi sem börn séu að koma sér inn í ævintýrin þá sé hugurinn að opnast og þannig nái þau að njóta alls þess að bóklestur hefur upp á að bjóða. „En það hjálpar þér ekki í lífinu vegna þess að þú þarft að lesa skólabækur og bréf frá skattinum. Þú verður að vera einhvern veginn læs.“ 

Fyrir skömmu síðan var Gunnar spurður hvað hægt væri að gera til þess að halda krökkum að bókinni. „Eina niðurstaðan er að við verðum að skrifa skemmtilegri bækur, eitthvað sem krakkar nenna að lesa,“ segir hann. Íslendingar eru að duglegir að skrifa og stæra sig af því að gefa út mikinn fjölda titla miðað við höfðatölu. „En krakkar sem hafa áhuga á lestri eru kannski bara búnir með nýju bækurnar í janúar, febrúar.“ Þá þurfi að fara aftur í tímann og finna eitthvað annað. „Okkur vantar bara fleiri og skemmtilegri bækur, ég held að það sé málið.“ 

„Það er svo erfitt að vera reiður“ 

Þrátt fyrir að hafa sterkar pólitískar skoðanir þá reynir Gunnar að vera það ekki út á við, hann hafi annað markmið í lífinu. Þó kemur fyrir að hann tjáir skoðanir sínar á alvarlegum málefnum á borð við þá umræðu að flytja eigi fjölda flóttafólks úr landi. „Ég þekki dómsmálaráðherrann aðeins, hann er mjög viðkunnanlegur maður og skemmtilegur, en mér finnst hann vera í ruglinu,“ segir Gunnar og vísar í Barnasáttmálann sem kveður á að fara skuli eftir þeim lögum sem fara barninu betur, hvort sem það eru landslög eða sáttmálinn sjálfur. „Hagur barna er það sem við eigum að passa fyrst og fremst upp á,“ segir Gunnar.  

Gunnar tjáði sig um málið á Facebook en segist reyna að hætta að skrifa pistla. „Það er svo erfitt að vera reiður,“ segir hann. Honum þykir fólk á samfélagsmiðlum vera svo reitt og gjarnan yfir málum sem það á ekki endilega að rífast og skammast yfir. „Þannig þegar það koma upp alvarlegri mál, eins og núna með dómsmálaráðherrann og flóttafólkið sem á að vísa úr landi, þá er enginn munur á,“ segir hann. „Þetta er bara allt ein rjómaterta.“ 

„Ég reyni að taka ekki þátt í þessu,“ segir Gunnar en stundum verði hann að láta í sér heyrast. Stundum minnir Facebook hann á fyrri skrif og þá sér hann sniðuga pistla þar sem hann hefur boðið upp á lausnir. „Bara ef allir myndu gera eins og ég segi þá myndi þetta ganga vel,“ segir hann kíminn. „Við verðum aðeins að lækka rostann, reyna að hætta að öskra,“ segir hann því það sem raunverulega skiptir máli þurfi að komast í gegn. 

„Jæja, ég geng á bak orða minna“ 

„Þessi bók átti náttúrulega aldrei að koma,“ segir Gunnar um nýjustu bók sína, Hanni Granni dansari. Hann hafði lofað að bókin sem kom út fyrir jólin yrði sú síðasta í seríunni. „En Felix vinur minn, sem lék Hanna Granna í leikritinu, var alltaf að segja að Hanni Granni ætti eftir að fá bók.“ Þeir hafi verið á ferð um landið og hittu fyrir barn frá Hornströndum sem sagði það sama. „Þá efldist Felix og svo kviknaði bara hugmyndin. Ég sagði: Jæja, ég geng á bak orða minna og skrifa eina bók í viðbót!“ 

Með hverri bók Gunnars verður að fylgja lag, sér í lagi þegar fólk er að hlusta á hljóðbækur í svo miklu´m mæli. Hann hafi verið að leita að valslögum og rekið sig á gamalt og gott uppáhaldslag úr barnæsku sinni, How much is the doggy in the window. Til samfélagsmiðla leitaði Gunnar og spurði hvar hægt væri að nálgast íslenskan texta við lagið en komst fljótt að hann var hvergi að finna. „En svo tuttugu mínútum seinna fæ ég send skilaboð frá Þorgils Björgvinssyni, sem ég þekkti ekkert: Hér er texti, þú mátt nota hann,“ segir Gunnar. „Þá hafði hann snarað honum saman á tuttugu mínútum.“ 

Eitthvað að ef þú nennir ekki að lesa eigin texta 

Árið 2010 ákvað Gunnar að helga sig barnabókaskrifum og hefur gengið nokkuð vel. Fyrst var hann nokkuð hissa yfir velgengninni en er það ekki lengur. „En það liggur gríðarleg vinna þarna að baki,“ segir hann. „Ég var búinn að skrifa þrjár barnabækur sem komu út á síðustu öld. Svo kom þarna langt tímabil þar sem ekkert kom, þar sem ég ætlaði að vera eitthvað allt annað. Fannst þetta aldrei nógu töff.“ Hann hafi þó sem betur fer áttað sig og ákvað að sér myndi ganga vel. „Ég lagði rosalega mikið á mig að skrifa og kynna,“ segir hann. „Ég var tvö ár að skrifa Víti í Vestmannaeyjum og mig langaði bara að hún myndi slá í gegn og ég gerði allt til þess.“ Hann vildi ekki fara út í að skrifa barnabækur því honum þætti það gaman eða væri góður í því heldur vildi hann gera það af metnaði. „Mig langaði að verða eins góður og ég mögulega gat.“ 

Barnabækur verða að vera annaðhvort fyndnar eða spennandi, annað gengur ekki. Gunnar hefur tvisvar sinnum lent í því að þurfa að henda handriti og byrja upp á nýtt vegna þess að honum þótti bókin vera hvorugt. Þetta gerðist með bókina Bannað að eyðileggja og svo aftur með framhaldsbókina sem er nú í bígerð. Bækurnar fjalla um innflytjendur á Íslandi og reyndi Gunnar að blanda Pútín inn í söguþráð framhaldsbókarinnar. „Ég var bara að skrifa og skrifa og alltaf alveg brjálaður. Svo las ég þetta yfir í síðustu viku og þetta var bara svo leiðinlegt,“ segir hann. „Það var ekkert fyndið, skemmtilegt eða spennandi.“ 

Í fyrra skiptið sem þetta gerðist var Gunnar kominn á lokasprett bókarinnar, búinn með sextíu blaðsíður af hundrað. „Þetta var bara hundleiðinlegt og ég henti þessu öllu og byrjaði upp á nýtt.“ Nú var hann einungis búinn með tuttugu síður og þótti því auðveldara að kasta þeim á glæ. „Ég byrjaði alltaf daginn með kvíðahnút í maganum og komst ekkert áfram,“ segir hann. Nú hefur hann breytt söguþræðinum og sagan flýgur áfram. „Ég er kominn jafn langt á tveimur dögum og á tveimur mánuðum.“ Í fyrra þótti honum mjög erfitt að þurfa að byrja upp á nýtt vegna þess hve langt hann var kominn og þurfti að fá frest frá bókaútgáfunni, í þetta skipti var það þó auðveldara. „Ef þú nennir ekki að lesa eigin texta þá er eitthvað að.“  

Rætt var við Gunnar Helgason í Segðu mér á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni hér.  

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Hún hefur haft alla þýðingu fyrir mig"

Bókmenntir

Gleymdi að vera leikari

Leiklist

Gunnar læsti sig inni í herbergi á fyrsta stefnumótinu