Morðinginn er sagður hafa skotið á börnin af handahófi þegar þau reyndu að forða sér. Nokkur börn og kennarar munu hafa særst í árásinni, þar á meðal amma morðingjans, sem hann er talinn hafa skotið áður en hann lagði af stað í þennan skelfilega leiðangur. Hún og tíu ára stúlka eru sagðar í lífshættu. Ekki er talið að árásarmaðurinn hafi átt sér vitorðsmenn.
Áttunda fjöldamorðið á þessu ári
Árásin á Robb-grunnskólann, þar sem nemendur eru á aldursbilinu 5 - 11 ára, er áttunda fjöldamorðið sem framið er í Bandaríkjunum á þessu ári og það sjöunda mannskæðasta sem þar hefur verið framið í rúm 70 ár. Aðeins eru tíu dagar síðan annar átján ára piltur myrti tíu svarta Bandaríkjamenn í og við stórmarkað í New York-ríki.
Sjá einnig: Myrti nítján börn í skotárás
Joe Biden Bandaríkjaforseti mælti fyrir um að fánar yrðu dregnir í hálfa stöng við Hvíta húsið og aðrar opinberar byggingar og hvatti fólk til þess að sameinast um að bjóða byssuframleiðendum og hagsmunagæsluliði þeirra byrginn.
Ýmist hvatt til harðari löggjafar eða varað við henni og ekkert breytist
Kamala Harris varaforseti kallaði líka eftir breytingum á byssulöggjöf landsins í gærkvöld, eins og fjöldi annarra stjórnmála- og áhrifafólks vestra. Eins og jafnan áður sögðust aðrir biðja fyrir fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra og vöruðu við því að takmarka aðgengi fólks að skotvopnum.
Viðbrögð í báðum herbúðum voru nánast þau sömu fyrir rúmum níu árum, þegar tvítugur maður réðst inn í Sandy Hook grunnskólann í Connecticut og myrti 20 börn, sex og sjö ára gömul, og sex manns úr starfsliði skólans.
Sama var uppi á teningnum eftir að nítján ára piltur myrti fjórtán nemendur og þrjá starfsmenn Stoneman Douglas-gagnfræðaskólans í Flórída fyrir rúmum fjórum árum. Byssulöggjöfin hefur lítið sem ekkert breyst í millitíðinni.