Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vill skoða samsetningu hópsins betur sem vísa á brott

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra segir vilja innan ríkisstjórnarinnar til að skoða betur samsetningu þess hóps fólks sem nú á að vísa úr landi. Skiljanlega veki það furðu að vísa erlendum borgurum  úr landi þegar skortur sé á vinnuafli.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra síðdegis átti að vísa 71 til Grikklands. Inni í þeirri tölu voru tíu fjölskyldur en eru nú þrjár, þar sem hinar sjö fá efnislega meðferð síns máls vegna þess að þær hafa verið lengur en eitt ár á landinu. 
Mikið hefur verið fundað í dag um málefni þeirra hátt í 300 sem til stendur að vísa úr landi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og atvinnumarkaðsráðherra
segir málið hafa verið rætt í ríkisstjórn í morgun.

„Og það er alveg skýr vilji okkar í VG og fleiri við ríkisstjórnarborðið að við skoðum betur samsetninguna á þessum hópi og hvort að það sé einhver hluti af hópnum sem þurfi að skoða betur þessi mál fyrir.  Hvað áttu þá við með að skoða betur fyrir?“ „Áttu þá við að senda fólkið ekki úr landi eða?“ „Ja, við viljum skoða hvað fólkið hefur verið langan tíma í landinu. Þetta er náttúrulega, við erum að koma út úr heimsfaraldri kórónaveiru sem að þýðir það að fólk var hér kannski lengur heldur en búist var við. Þannig að þetta eru atriði eins og þetta sem að þarf að skoða og hvort að það er eitthvað í málefnum þessa fólks, sérstaklega þeirra sem er fyrirhugað að senda aftur til Grikklands þar sem við vitum að aðstæður eru ekki þær bestu, þannig að okkar mati þarf að kafa betur ofan í samsetninguna á þessum hópi.“

Félags- og vinnumarkaðsráðherra telur eðlilegt að það veki furðu að fólki sé vísað úr landi á sama tíma og skortur sé á vinnuafli.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra V
„Já, það orkar auðvitað tvímælis. Það er eitthvað sem ég held að þurfi klárlega að skoða alla vega varðandi fólk sem að er komið í  einhverja vinnu. Hvort að það sé einhver hluti af þessum hópi. Þannig að ég held að það sé eitt af því sem að við þurfum að horfa til. Almennt séð þá tel ég að við þurfum að skoða miklu betur að fólk geti komið hingað til Íslands í leit að vinnu en ekki endilega að fara í gegnum umsóknir um að fá hér alþjóðlega vernd.“ 

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV