„Verð ég stimpluð fyrir lífstíð?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Verð ég stimpluð fyrir lífstíð?“

24.05.2022 - 13:48

Höfundar

„Ég man að ein af fyrstu hugsunum mínum eftir að fréttirnar bárust var: Oh, verð ég alltaf þessi stelpa sem missti pabba sinn svona? Verður þetta það sem fólk man?“ segir Virpi Jokinen sem var aðeins nítján ára þegar faðir hennar svipti sig lífi. Reynslan hafði djúpstæð áhrif á Virpi sem síðan hefur lagt sig fram við að sjá ljósið og velja jákvæðnina.

Virpi Jokinen er fædd og uppalin í Finnlandi, í litlum bæ á suðvesturhorni Finnlands sem nefnist Rauma. Bærinn er þekktur fyrir pappírsverksmiðju og skipasmíði og er samkvæmt Virpi góður staður til að alast upp á. Móðir hennar vann á spítala en faðir hennar var málari í bænum sem gekk um og málaði fallegar byggingar, sem Virpi segir að nóg sé af í Rauma. „Rauma er einn af elstu bæjum Finnlands og hefur varðveist í heimsskrá UNESCO,“ segir hún við Huldu Geirsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.

Átti marga félaga og bjartar minningar úr æsku

Í Rauma er talað tungumál sem er frábrugðið finnsku. „Ef ég tala raumamál eru margir Finnar sem skilja mig ekki. Það er tungumál en ekki mállýska,“ segir Virpi. Þegar hún hugsar til baka til æskuáranna eru þær jafnan ljúfar. „Ég var bara úti að leika, allir fóru út að leika eftir kvöldmat sem var snemma að finnskum sið,“ segir hún. „Svo bara allir út þar til mömmurnar byrjuðu að kalla út um eldhúsgluggann. Mér fannst skemmtilegt, átti mikið af félögum og á bjartar og góðar minningar úr æsku.“

Vandi sig á að segja alltaf já við nýjum tækifærum

Þrátt fyrir að líða vel fann Virpi sterka löngun til að flytja burt frá Rauma og kynnast heiminum. Sextán ára fékk hún starf í miðju Finnlandi og fór síðar að læra vefnað. „Mér fannst það alveg sjálfsagt sem ungri stúlku, það var alltaf vefstóll heima hjá okkur í stofunni,“ segir hún. „Mamma var dugleg að vefa að búa til veggteppi og mottur. Mér fannst það sniðugt.“

Hún hefur enda alltaf verið skapandi og lýsir sjálfri sér sem síteiknandi og skrifandi frá barnsaldri. „Ég var mjög sterk í öllu sem sneri að skapandi verkefnum og viðburðum. Ef það var eitthvað um að vera í skólanum var ég annað hvort með hugmyndina eða ég tók vel í hugmynd annarra, sagði já gerum þetta, og þá gerðist eitthvað.“

Hagar sér enn eins og ungt fólk

Þegar Virpi var ung segist hún hafa hugsað og hagað sér eins og ungt fólk. Það hefur lítið breyst. „Nú er ég að nálgast fimmtugt og er enn eins og ungt fólk,“ segir hún.

Enn leiti hún að stóru stefnunni í lífinu en hún hefur þó fundið það mikilvægasta og leggur við það rækt: „að leita að hamingju og vellíðan. Að njóta dagsins í dag, gera sitt besta, koma vel fram og ná árangri í þeim verkefnum sem maður er að takast á við.“

„Ég heiti Ólöf og hringi frá Íslandi“

Virpi hefur alltaf tekið áskorunum fagnandi og var ung vön því að segja bara já við tækifærum áður en hún velti því fyrir sér hvort þau hentuðu sér. „Þarna gerist það að ég fæ hringingu frá Íslandi sem er stutt og hnitmiðað,“ rifjar hún upp. Í símanum var kona sem kynnti sig: „Ég heiti Ólöf og hringi frá Íslandi. Ég er með sumarstarf fyrir þig en þú verður að vera komin eftir viku.“ Það stóð ekki á svörum: „Ég segi já, ég kem.“

Þá hafði Virpi sótt um að komast til Íslands á vegum Nordjobb og starfið sem hún fékk fólst í að starfa í sveit á Suðurlandi. „Ég hafði hakað við Ísland. Það var þessi eyjupæling svo þegar maður horfir á kort frá Íslandi er það bara hringur, þessi auðn í miðjunni,“ segir Virpi. „Mér fannst það svo heillandi hugmynd og maður hugsar: Þetta hlýtur að vera eitthvað sem er áhugavert að kynnast.“

Getum valið jákvæðnina

Virpi tók því af skarið óhrædd. Hún segir að það sé ekki endilega sjálfstraust sem hjálpi henni að takast á við nýjar aðstæður heldur ótta- og áhyggjuleysi sem hún hefur tamið sér. „Ég held ég hafi snemma valið jákvæðnina. Við erum alltaf að takast á við jákvæðnina og getum alltaf valið: ætla ég að líta á þetta sem neikvætt eða jákvætt?“

Virpi var tuttugu og eins árs þegar hún kom til Íslands árið 1993 og sneri ekki aftur heim fyrr en einu og hálfu ári síðar, til að fara í brúðkaup vinar síns. En hún sneri aftur til Íslands enda ekki búin að segja skilið við land og þjóð, hún fann það. Hún komst inn í Mynd og hand að læra textíl og ákvað að staldra við lengur, og er hér enn. „Svo endaði með því að vinir manns voru hér, vinnan og allt sem maður var að fást við.“

„Þetta skeður svo skyndilega þegar sjálfsvíg eru“

Faðir Virpi var látinn þegar hún kom til Íslands en hann svipti sig lífi rétt fyrir fimmtugt, þegar Virpi var 19 ára. „Hann tók sitt eigið líf, tók þessa ákvörðun þannig að þegar ég fer er mamma bara ein eftir,“ segir hún. „Það skeður alltaf svo skyndilega þegar sjálfsvíg eru á annað borð svo það er enginn undirbúningstími, þetta kemur rosalega flatt upp á mann og það á engin von á þessu.

Ég man að ein af fyrstu hugsunum mínum eftir að fréttirnar bárust var: Oh, verð ég alltaf þessi stelpa sem missti pabba sinn svona? Verður þetta það sem fólk man og verð ég stimpluð fyrir lífstíð?“

Töluðu opinberlega um sorgina

Svo varð þó ekki. Fjölskyldan tók strax ákvörðun um að tala opinskátt um þennan sviplega dauðdaga. „Þetta var ekkert leyndarmál, við ræddum þetta við hvern sem vildi og vildum í raun að fólk hlustaði á okkur. Eftir á hugsa ég að þetta hafi í raun verið besta mögulega leið sem við gátum valið, við hefðum ekki komið vel út úr þessu ef við hefðum ekki náð að ræða þetta. Ræða sorgina og þessi áhrif sem það hafði á okkur.“

Erum aldrei komin á endapunkt

Hún segir átakanlegt að vita til þess að fólk þurfi að ganga í gegnum það sem faðir hennar þurfti að þola og olli þessari örvæntingu. „Það er sorglegt þegar líðan okkar er þannig að okkur finnist við ekki sjá möguleikana eða leiðir út,“ segir Virpi. Síðan hún gekk í gegnum þennan harm hefur verið sterk tilhneiging hjá henni að leita lausna við öllum vanda. „Sama hvernig staðan er er aldrei endapunktur. Þetta er alltaf sama ferðalagið, það kemur hlíð eftir hlíð, stígur eftir veg en við erum að mínu mati sjaldan eða aldrei komin á endapunkt.“

Reynslan hjálpaði við að velja jákvæðnina

Jákvæðni og bjartsýni hafa verið vinir hennar. „Það er mjög líklegt að þessi reynsla hafi haft þessi áhrif, að ég vil sjálf tengja þessa jákvæðni og bjartsýni sem ég bý yfir og eru kannski mínir helstu styrkleikar. Það svolítið sprettur þaðan, það er lífskraftur okkar að sjá að það er eitthvað fram undan og sjá að margt eða allt getur farið vel.“

Norræna félagið og Þjóðleikhúsið

Virpi starfaði um skeið í Norræna félaginu við að taka á móti ungu fólki frá norðurlöndum. Seinna varð hún verkefnastjóri í félaginu. Það var gott tímabil og verkefnin skemmtileg en Virpi fór eftir nokkurn tíma að finna fyrir stöðnun og það hentar henni ekki. Hún ákvað að færa sig um set og fór að starfa sem sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu.

Þegar þessu tímabili lauk fékk hún starf hjá íslensku Óperunni sem skipulagsstjóri. Þá sá hún um vikulega skipulagsfundi og að allir vissu hvað væri fram undan, gætu skipulagt sitt og skipt verkefnum á sviðinu. „Ég passaði upp á að það væru ekki árekstrar í húsinu.“

Búa á besta punkti í heiminum

Virpi á tvö börn, 10 og 13 ára. Þau voru lítil þegar Virpi starfaði hjá óperunni og það gekk upp með góðri aðstoð. „Ég á ekki börnin ein svo við skiptumst á og deilum ábyrgðinni. Mamma hefur líka komið oft og því var stillt þannig upp að þegar það var frumsýning í óperunni átti mamma akkúrat leið hjá,“ segir Virpi og hlær.

Móðir hennar er að nálgast áttrætt, býr enn í Rauma þar sem hún stundar keilu af kappi. Virpi og börnin heimsækja hana einu sinni á ári enda telur hún mikilvægt að halda finnskum samskiptum gangandi og að fjölskyldan tali finnsku. En á Íslandi vill hún áfram búa 29 árum eftir að flytja hingað. „Ég tel að Ísland sé gott land fyrir börnin til að alast upp. Við búum í Laugarnesi og mér finnst ég oft búa á besta punkti í heiminum.“

Mikilvægt að vita að maður sé alltaf elskaður

Virpi segir börnunum sínum óspart að hún elski þau enda segir hún mikilvægt að heyra að við séum elskuð og verðskulduð. „Það sé tekið gilt hvort sem við erum leið eða reið þá erum við elskuð. Mér finnst þetta sérstaklega fyrir börnin svakalega mikilvægt,“ segir hún.

Hjartað óx aftur í nótt

Sjálf hafði hana ekki órað fyrir því að það væri hægt að elska eins og hún elskar börnin sín. „Ég vissi ekki að svona ást væri til og þegar maður eignast svo annað barnið stækkar hjartað enn. Og á hverjum degi þegar maður vaknar og sér börnin sín, maður finnur vá það óx aftur í nótt. Og því eldri sem þú verður því stærri verður ástin.“

Aðstoðar fólk við að skipuleggja heimili sín

Virpi rekur fyrirtækið Á réttri hillu og starfar sem skipuleggjandi sem kemur inn á heimili og aðstoðar fólk sem gjarnan fyrir máttleysi eða þreytu gagnvart skipulagsleysinu á heimilinu við að koma skikki á það. „Við viljum þetta ekki en við vitum ekki hvar við eigum að byrja, hvað við eigum að gera og hvernig við gerum þetta. Þar kem ég inn þar sem vantar aðstoð við að leysa upp einhverja stöðu svo hlutirnir geti aftur gengið,“ segir hún. „Oft hefur eldra fólk samband sem langar að flyta en treystir sér ekki að flytja því það er svo yfirþyrmandi tilhugsun að þurfa að finna út úr gamla heimilinu. Þar nýtist svona aðstoð mjög vel.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Virpi Jokkinen í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.