Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir Jón fara með rangt mál um samstöðu í ríkisstjórn

Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra segir rangt að eining ríki innan ríkisstjórnarinnar um yfirvofandi brottvísanir fólks sem hefur sótt um vernd hér á landi. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagðist í Kastljósi ekki vita betur en að eining sé um málið innan ríkisstjórnarinnar.

Mikið hefur verið fjallað og fundað í dag um málefni þeirra hátt í 300 sem til stendur að vísa úr landi. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra síðdegis átti að vísa 71 til Grikklands. Inni í þeirri tölu voru tíu fjölskyldur en eru nú þrjár, þar sem hinar sjö fá efnislega meðferð síns máls vegna þess að þær hafa verið lengur en eitt ár á landinu. 

„Ég gerði mjög alvarlegar athugasemdir við þá vegferð sem ráðherrann er á í ríkisstjórn í morgun. Benti þar á að það er liðinn talsverður tími hjá sumum síðan brottvísunarákvörðun var tekin. Það þurfi að líta til þessa hóps. Til dæmis hvort það séu sérstakar aðstæður, hvort þarna séu börn sem eru búin að vera lengi hér á landi, mögulega fatlað fólk og veikt og að það þurfi að horfa sérstaklega á þennan tíma og til sérstakra aðstæðna bæði hvað varðar lengdina á tímanum sem þau hafa verið hér og svo auðvitað líka móttökulandið. Þar hefur Grikkland sérstaklega verið nefnt,“ sagði Guðmundur Ingi, félagsmálaráðherra og varaformaður VG, í tíufréttum.

Hann sagði fleiri ráðherra hafa gert athugasemdir við brottvísanirnar en vildi ekki gefa upp hvaða ráðherrar þar voru. Þá sagði hann orð Jóns um einingu innan stjórnarinnar röng.

„Ja... í minum huga er þetta bara rangt. Það er bara þannig. Þetta er rangt. Ég vonast til að við leysum úr þessu máli. Ég fylgi bara mannúðlegri útlendingastefnu VG. Það er í okkar stefnu. Að mínu viti þá þurfum við að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar og greina hópinn betur, líkt og ég hef greint frá í fjölmiðlum fyrr í dag þannig við sjáum betur hvort þetta eigi að eiga við öll þau sem þarna eru eða hvort einhver þeirra geti fengið vernd hér á Íslandi,“ sagði Guðmundur Ingi.

Aðspurður um hvort hann sé ánægður með það hvernig dómsmálaráðherra hefur haldið á málinu og talað um það sagði Guðmundur Ingi svo ekki vera. „Ég held það sé alveg ljóst af mínum orðum.“

Þá sagði hann næstu skref að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu um málið innan stjórnarinnar. Sagðist hann hafa fulla trú á því að það náist.