Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Myrti nítján börn í skólaskotárás

24.05.2022 - 20:26
Police walk near Robb Elementary School following a shooting, Tuesday, May 24, 2022, in Uvalde, Texas. (AP Photo/Dario Lopez-Mills)
 Mynd: AP
Átján ára árásarmaður myrti nítján börn og tvo kennara í skotárás á skóla fyrir börn á aldrinum fimm til ellefu ára í bænum Uvalde í Texas í Bandaríkjunum. Morðinginn var felldur á vettvangi.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, greindi frá því á fréttamannafundi að átján ára unglingur úr bænum hafi myrt fjórtán börn og einn kennara. Hann sagði að árásarmaðurinn hafi farist sömuleiðis, þegar lögregla skaut hann til bana. 

Þá sagði hann árásarmanninn hafa verið vopnaðan skammbyssu og mögulega riffli. Í yfirlýsingu sem Abbott sendi frá sér eftir fréttamannafundinn segir að Texas-búar syrgi nú allir fórnarlömb árásarinnar. Hann þakkaði viðbragðsaðilum og sagðist hafa skipað lögreglu og viðeigandi stofnunum að vinna saman að rannsókn málsins.

Síðar bárust þær fréttir að nítján börn hefðu farist í árásinni og þrjú fullorðin, þar á meðal árásarmaðurinn sjálfur. Á annan tug særðust, þar á meðal amma morðingjans, sem hann skaut áður en hann lagði upp í morðleiðangur sinn. Hún og tíu ára skólastúlka eru sagðar í lífshættu. 

Þetta er sjöunda mannskæðasta skotárásin í Bandaríkjunum frá árinu 1950. Þá er þetta næstmannskæðasta árásin á grunnskóla, en 27 voru myrt í árás á Sandy Hook-grunnskólann í Newtown í Connecticut árið 2012. Sjö af tíu mannskæðustu skotárásunum hafa verið gerðar á síðustu tíu árum.

 
Þórgnýr Einar Albertsson