Gunni á Dilli skammaðist í Dóra aðstoðarkokki

Mynd: RÚV / RÚV

Gunni á Dilli skammaðist í Dóra aðstoðarkokki

24.05.2022 - 12:48

Höfundar

Þeir veislubræður, Dóri DNA og Gunnar Karl, fengu mat á Seyðisfirði sem þeir voru sammála um að ætti skilið að fá Michelin-vottun. Þeir voru þó ekki sammála um allt, eins og áhorfendur urðu vitni að. Þegar Gunnar Karl var að grilla bleikju yfir opnum eldi ofan í veislugesti í Skálanesi fannst honum Dóri eitthvað svifaseinn og skammaðist því aðeins í honum. 

Gunnar Karl rak, eins og frægt er, veitingastaðinn Dill við Hverfisgötu. Það er eini veitingastaðurinn hér á landi til þessa sem hefur hlotið Michelin-stjörnu. Hann hefur einnig unnið á veitingastöðum í Evrópu sem jafnvel hafa fengið tvær stjörnur. Maður hefði því haldið að Gunnar Karl vissi nákvæmlega hvað þyrfti til að njóta þess mikla heiðurs að fá Michelin-stjörnu. Hann segir þó að málið sé ekki svo einfalt.

„Michelin er svo leyndardómsfullt. Það veit enginn nákvæmlega hvað þú þarft að gera til þess að fá Michelin-stjörnu eða tapa henni. Þetta er líka miklu meira en bara maturinn jafnvel þótt þeir segi að fyrsta stjarnan sé alltaf bara einhvern veginn maturinn. Auðvitað skiptir allt máli, skilurðu? Að það sé einhver hugmyndafræði á bak við þetta allt saman," sagði Gunnar Karl meistarakokkur í lokaþætti Veislunnar á sunnudag.

Hitnar í kolunum

Dóri DNA og Gunnar Karl hafa nú slegið upp veislu á Suðurlandi, Vestfjörðum, í Skagafirði, á Borgarfirði eystra og nú aftur á Austurlandi. Í lokaþættinum fóru þeir meðal annars á Seyðisfjörð þar sem þeir fengu sushi sem margir segja að sé það besta á Íslandi.

Þar að auki borðuðu þeir hádegismat í algjörri rjómablíðu á pallinum við Hótel Öldu sem þeir voru sammála um að gæti alveg átt skilið að fá Michelin-stjörnu. 

Þeir veislubræður voru þó ekki sammála um allt eins og áhorfendur fengu að sjá. Þegar meistarakokkurinn var að grilla bleikju á opnum varðeldi í Skálanesi ofan í veislugesti sína fannst honum Dóri eitthvað svifaseinn. 

„Dóri, bleikjan er að brenna sko!" kallaði hann til Dóra aðstoðarkokks. 

„Hún er ekki að brenna," svaraði Dóri um hæl. „Ef þessi matur eyðileggst þá er það ekki því að kenna að ég var lengi að sækja eitthvað fat sko."

Gunnar Karl muldraði eitthvað og virtist ekki nenna að pexa við Dóra aðstoðarmann enda átti hann fullt í fangi með að bjarga veislumatnum undan seinagangi félaga síns. En eins og búast mátti við tókst Gunnari Karli að bjarga bleikjunni og því fór allt vel í Skálanesi. Auk bleikjunnar var veislugestum boðið upp á austfirskt hreindýr, rótargrænmeti, bygg, kartöflur, sósu búna til úr kotasælu og margt fleira.

Eins og í öðrum þáttum Veislunnar var lögð áhersla á að allt hráefni væri úr nálægum sveitum. Að þessu sinni var allt hráefni fengið úr sveitunum í kringum Skálanes, nema kannski drykkjarföngin. 

Brot úr lokaþætti Veislunnar má finna hér fyrir ofan en hér má nálgast alla þættina í heild sinni.