Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

50 þúsund manns með skipum til Grundarfjarðar í sumar

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Von er á fimmtíu þúsund farþegum með 45 skemmtiferðaskipum til Grundarfjarðar í sumar. Hafnarstjóri segir ekkert lát á bókunum.

Fyrstu skemmtiferðaskipin hafa þegar lagt að bryggju víða um land með meðfylgjandi flaumi ferðamanna. Í Grundarfjarðarhöfn kemur fyrsta skip sumarsins sjöunda júní, en Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri segir bókanir með ágætum. 

„Þetta byrjar sjöunda júní og þá held ég að það verði bara stanslaust fram í september,“ segir hann.  

Farþegar meira en tvöfalt fleiri með bættri hafnaraðstöðu

Hafsteinn á von á því að fjörutíu og fimm skemmtiferðaskip komi til Grundarfjarðar í sumar. Það eru færri skip en fyrir COVID, en með lengri og dýpri hafnarkanti sem er kominn í notkun í Grundarfirði eru skipin stærri og með fleiri farþegum en áður.

„Það voru einhvers staðar rúmlega tuttugu þúsund farþegar en við gerum ráð fyrir fimmtíu þúsund farþegum í sumar þannig að þú sérð að þetta eru miklu stærri skip í ár,“ segir hann.

„Svo erum við núna að fara að fá flotbryggju nýja, stærri og breiðari. Fyrir þau skip sem eru út á, fyrir farþegana sem koma með léttabátum. Þannig að aðstaðan verður mjög góð.“ 

Covid-lægðin liðin hjá skemmtiferðaskipum

Hann segir nokkuð ljóst að komur skemmtiferðaskipa hafi náð sömu hæðum og fyrir COVID og jafnvel rúmlega það. 

„Það er mikil ásókn í Ísland. Eins og við sjáum alveg, búið að bóka vel fyrir 2024. Já, mér sýnist það að þetta sé bara komið til að vera.“