Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Varar við skyndikynnum vegna apabólu

23.05.2022 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fyrsta tilfelli apabólu greindist í Danmörku í dag. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir nokkuð ljóst að sjúkdómurinn berist hingað til lands. Hann hvetur fólk til að vera ekki í nánu samneyti við ókunnugt fólk og passa sig í kynlífi. 

Þórólfur segir að tilfellum apabólunnar sé að fjölga í mörgum löndum. Að minnsta kosti 60 einstaklingar hafa greinst í Evrópu og líklega bætist fleiri við á næstu dögum. „Maður verður að líta svo á að þetta getur borist hingað með fólki sem er að koma frá löndum þar sem sýkingin er. Ég held að það sé nokkuð ljóst og við þurfum að vera við því búin að það geti gerst.“

Áhættuhegðun í kynlífi varasöm

Sjúkdómurinn smitast aðallega við mjög náið samneyti milli fólks. „Bæði virðist það vera við kynmök. Smit í gegnum húð frá fólki sem er með vessandi útbrot, svo getur þetta smitast líka við náin samgang með dropasmiti þar að segja út frá öndunarvegi.“

Hann segir að aðal forvörnin núna sé að  hvetja fólk til þess að vera ekki í nánu samneyti við fólk erlendis sem það þekkir ekki. „Fara varlega í kynlífi því þetta virðist blossa sérstaklega upp í sérstökum aðstæðum sem fólk hefur verið að koma sér í í kynlífi.“

Börn viðkvæmari fyrir sjúkdómnum

Þórólfur segir að mikilvægt að sé að vekja athygli á apabólunni hérlendis til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins eins mikið og hægt er. Sérstaklega þurfi að vernda viðkvæma einstaklinga og börn sem virðast viðkvæmari fyrir sjúkdómnum en fullorðnir.