Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þórdís segir línurnar í borginni augljósar

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir skýrar línur í borgarmálunum og það liggi beinast við að Samfylking, Píratar og Viðreisn ræði fyrst meirihlutasamstarf við Framsókn. Framsóknarmenn liggja undir feldi en Þórdís segir að nýjum meirihluta eigi eftir að fylgja breytingar, og þeim hafi Framsókn kallað mjög eftir.

Þórdís ítrekaði bandalag Viðreisnar í gær við Samfylkingu og Pírata og segist hafa viljað skora á Framsókn að taka af skarið og hefja viðræður. Nýjum meirihluta fylgi alltaf breytingar. „Við erum mjög til í það en svo erum við ekki komin lengra, við skulum ekki fara fram úr okkur. Við erum bara að segja það skýrt að við viljum fara í viðræður, viðræður eru viðræður og þá koma allir að borðinu, það getur farið hvernig sem er,“ sagði Þórdís í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, sagðist í fréttum í gær ætla að ræða við sitt bakland um stöðuna. Ákvörðun Viðreisnar fækki möguleikum á meirihlutamyndun en áhersla Framsóknar verði eftir sem áður á breytingar. 

„Hvað er það sem að borgarbúar voru að kjósa?“

Þórdís segir að meirihlutinn hafi fallið í kosningunum en það megi segja sem svo að minnihlutinn hafi gert það líka. Stjórnarflokkarnir töpuðu tveimur mönnum, Viðreisn einum og Samfylkingin einum, en stjórnarandstöðuflokkarnir þremur. „Það er ekki verið að kjósa þá, þeir falla meira en meirihlutinn og þegar við tökum þetta inn þá hugsa ég; hvað er það sem að borgarbúar voru að kjósa? Þeir voru að kjósa nýtt afl sannarlega en þeir voru að kjósa eftir stórum línum. Og þótt að lítill leikur hér á RÚV hafi þótt glens og gaman þegar við fórum öll oddvitarnir í já og nei spurningarnar en það var samt mjög táknrænt, þar sást það og það flugu hér um screenshot af því hvernig við sögðum já við húsnæðismálunum og borgarlínunni og samgöngusáttmálanum og það verður ekkert skýrara en það, þegar þú þarft að svara já eða nei að þá sést það, og þá eru þessar línur ansi augljósar.“