Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skera upp herör gegn hatursorðræðu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vísbendingar um vaxandi hatursorðræðu vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar eru helstu ástæður þess að forsætisráðherra vill samhæfa aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu í íslensku samfélagi.

Í minnisblaði sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, lagði fram í ríkisstjórn á föstudag kemur fram að ráðherra hafi ákveðið að skipa starfshóp sem verði falið að gera tillögur að aðgerðum.

Samráð við hagsmunasamtök

Á vef Stjórnarráðsins stendur að starfshópnum sé ætlað að hafa samráð við hagsmunasamtök og meta hvort stjórnvöld skuli setja fram áætlun um samhæfðar aðgerðir og nálgast verkefnið heildstætt.

Aðgerðir sem ráðist verður í eiga að miða að því að vinna gegn hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Þær geti verið í formi vitundarvakningarherferðar og annarra verkefna sem miði að því að skera upp herör gegn hatursorðræðu. 

Stuðlað að virkri þátttöku

Verkefnið er sagt mikilvægt, meðal annars til að stuðla að virkri þátttöku allra í íslensku samfélagi. Að því verði stefnt að öll geti notið eigin atorku, þroskað hæfileika sína og notið athafnafrelsis og tjáningarfrelsis sem og frelsis til heilbrigðs lífs.

Í starfshópnum verða fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Jafnréttisstofu. Auk þess verða fulltrúar skipaðir í hópinn af forsætisráðherra, segir á vef Stjórnarráðsins.