Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óvissa og verðhækkanir á byggingamarkaði

23.05.2022 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Verkkaupar þurfa að huga sérstaklega vel að verksamningum um þessar mundir. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Verð á aðföngum fyrir byggingariðnað hafi í sumum tilfellum margfaldast á síðustu mánuðum. Vöruskortur vegna heimsfaraldurs og stríðsátaka hafi mikil áhrif á stórar atvinnugreinar.

Hrávöruverð hefur hækkað mikið undanfarin misseri. Verð á stáli hefur margfaldast, það hefur fjórfaldast á stuttum tíma. Verð á kopar hefur hækkað mikið sem skilar sér í hækkun á verði raflagnaefnis.

„Við höfum séð þetta líka varðandi timbur, þannig að þetta kemur víða við sögu í byggingariðnaðinum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Hann segir marga verktaka hafa sýnt fyrirhyggju og náð að útvega aðföng í tæka tíð svo verk tefjist ekki eða snarhækki í verði. Stríðsátökin í Úkraínu lokuðu stórum mörkuðum eins og Hvíta-Rússlandi og Rússlandi sem eru stórir markaðir fyrir stál og timbur.

„Þannig að þá þarf að finna nýja markaði og það erum fleiri en við í þeirri stöðu  þannig að það hefur þá áhrif bæði á afhendingartíma og verð. Þannig að það hefur verið mjög krefjandi skulum við segja og mikil áskorun að láta hlutina ganga.“

Ekki sér fyrir endann á þessari stöðu. 

„Þó að svona vonandi muni rætast eitthvað úr að lokum en það er ekkert sem bendir til þess að það sé í kortunum akkurat núna.“

Margir verksamningar sem gerðir hafa verið taki ekki tillit til þessara miklu verðhækkana.

„Þeir eru oft miðaðir við byggingavísitölu sem að endurspegla ekki þá hækkun sem hefur orðið á verði aðfanga sem gerir það að verkum að verktakar geta lent illa í því sem eru með opna samninga í dag. Þannig að verkkaupar og þá kannski sérstaklega opinberir verkkaupar þurfa að íhuga þessa stöðu og sýna sveigjanleika og við vitum það reyndar að í nýlegum útboðum þá hafa verkkauparnir viljað setja inn endurskoðunarákvæði til þess að taka á þessu sem er mjög jákvætt mál.“ 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV