Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýr ráðherra sakaður um nauðgun

23.05.2022 - 19:43
epa09968797 French Minister for Solidarity, Autonomy and People with Disabilities Damien Abad leaves Elysee palace after the first new cabinet meeting, in Paris, France, 23 May 2022. Elisabeth Borne has been appointed as the new French Prime Minister, on 16 May, prompting a government and cabinet reshuffle following the re-election of Emmanuel Macron as French President.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA
Damien Abad, nýr ráðherra málefna fatlaðs fólks í ríkisstjórn Frakklands, hafnaði í dag ásökunum um kynferðisbrot og neitaði að segja af sér. Rúmlega tíu ára gamlar ásakanir voru gerðar opinberar um helgina.

Abad ræddi við fréttamenn í kjördæmi sínu í austurhluta landsins í dag og spurði hvort þeim þyki rétt að saklaus maður segi af sér. Hann sagðist hafna því að hann hafi nokkurn tímann gerst sekur um nauðgun.

Tilnefning Abads í embætti ráðherra þótti mikill sigur fyrir Emmanuel Macron forseta, samkvæmt því sem segir í frétt AFP. Abad er fyrsti fatlaði Frakkinn til að ná kjöri á þing og var áður þingflokksformaður Repúblikana.

Franski miðillinn Mediapart greindi frá því á laugardag að samtök gegn kynferðisofbeldi, sem stofnuð voru af forsprökkum frönsku Me Too hreyfingarinnar, hafi tilkynnt saksóknurum um meint brot ráðherrans. Hann er sakaður um að hafa nauðgað tveimur konum árin 2010 og 2011.

Talsmaður nýrrar Frakklandsstjórnar sagði í dag að hvorki Macron né Elisabeth Borne forsætisráðherra hafi vitað af ásökununum þegar Abad var tilnefndur. 

Stjórnarandstæðingar hafa krafist þess að Abad segi af sér tafarlaust. 

Gerald Darmanin, sem var skipaður í embætti innanríkisráðherra árið 2020 og hélt sæti sínu við uppstokkunina nú, var sömuleiðis sakaður um nauðgun og var mál hans til rannsóknar þegar Macron ákvað að skipa hann. Darmanin hefur hafnað öllum ásökunum og saksóknarar mæltu með niðurfellingu málsins í janúar.

Þórgnýr Einar Albertsson