Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Höfuðpaurinn úr Stóra fíkniefnamálinu meðal sakborninga

lögreglumaður á bílastæðinu við lögreglustöðina við Hverfisgötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Höfuðpaurinn úr Stóra fíkniefnamálinu frá því um aldamót situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að standa á bak við umfangsmikið fíkniefnamál sem hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu síðustu mánuði. Hann var handtekinn að lokinni eftirför lögreglu á föstudag.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu síðdegis um að fimm hefðu verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald eftir stóra aðgerð lögreglunnar, grunaðir um skipulagða brotastarfsemi og fíkniefnalagabrot.

Í tilkynningunni segir að um hafi verið að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna auk peningaþvættis. 

Heimildir fréttastofu herma að höfuðpaurinn í málinu sé Ólafur Ágúst Hraundal, áður Ægisson, sem hlaut níu ára fangelsisdóm í Stóra fíkniefnamálinu svokallaða, í júní árið 2000, þyngstan dóm allra sakborninga. Hann var síðan aftur dæmdur árið 2007 í níu og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnasmygl, þar af var fjögur og hálft ár eftirstöðvar frá dómnum árið 2000. Hann var handtekinn nú á föstudag eftir að lögregla veitti honum eftirför á Reykjanesbraut, með þeim afleiðingum að miklar skemmdir urðu bæði á lögreglu- og sérsveitarbílum.

Tíu voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar, þeirra á meðal var ábúandi skammt  frá Hellu. Þá fór lögregla í húsleit víða, bæði í höfuðborginni og á Suðurlandi, og lagði meðal annars hald á fjörutíu kíló af kannabisefnum. Nokkrir tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum auk sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknadeildar, vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Hann staðfesti hins vegar að efnin sem voru gerð upptæk hafi verið framleidd og ræktuð hér á landi.