Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verðum að reikna með að næsta gos verði alvarlegra

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur. - Mynd: RÚV / RÚV
Auknar líkur eru á að stór jarðskjálfti verði nærri höfuðborgarsvæðinu, að mati jarðfræðings. Skjálftar á Reykjanesskaga eru jafnan stærri eftir því sem austar dregur. 

Töluvert dró úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga í gær og í nótt, en hún tók svo aðeins við sér í morgun, þegar tveir skjálftar, annar 3,5 og hinn 3,6 að stærð, urðu með nokkurra mínútna millibili.

Atburðarásin nú minnir um margt á aðdraganda eldossins við Fagradalsfjall í fyrra. Páll Einarsson jarðfræðingur segir varasamt að búast við eins eldgosi og síðast, ef það fer að gjósa aftur. 

„Tilhneigingin er oftast þannig að við reiknum með því að næsta gos verði eins og síðasta gos,“ segir Páll. „En í þessu tilviki held ég að það sé algjörlega óraunhæft, því að þetta gos var náttúrulega alveg sérstaklega viðfelldið og auðvelt í meðförum, þannig að við verðum að reikna með því að næsta gos - ef til þess kemur - að það verði alvarlegri atburður en þetta,“ segir Páll. 

„Flest önnur gos eru miklu dramatískari og byrja með látum og eru miklu hættulegri en þetta,“ segir Páll. 

Virknin nær yfir stærra svæði en áður

Mörg þúsund skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga undanfarna daga og vikur. Stærsti skjálftinn varð aftur á móti í Þrengslunum. Sá var 4,8 að stærð og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Páll segir að enn stærri skjálfti gæti riðið yfir á svipuðum slóðum. 

„Það sem hefur gerst núna upp á síðkastið, síðustu vikurnar, er að virknin er að færast yfir á stærra svæði,“ segir Páll. „Það er ákveðið lögmál í gangi samt að stærstu skjálftar verða stærri eftir því sem austar dregur á skaganum og á sama hátt kannski eldvirknin meiri vestan megin.“

Hann telur auknar líkur á stórum skjálfta, sem oft hefur verið varað við, til dæmis við Brennisteinsfjöll. „Já, líkurnar eru auknar,“ segir Páll. „En ég myndi nú ekki treysta mér samt til þess að nefna neina tölu.“

Öskjugos oftast meinlaus

En það eru víðar jarðhræringar en á Reykjanesskaga. Við Öskju hefur land risið um þrjátíu sentimetra vegna kvikusöfnunar.

Páll segir þetta ekki endilega váleg tíðindi, þó að dæmi séu um miklar hamfarir við Öskju. „Askja gaus vissulega hættulegu gosi 1875, en langflest gos í Öskju eru lítil og meinlaus og jafnvel þannig að fólk tekur varla eftir þeim.“

Öskjugosið 1875 olli miklum hörmungum. Gjóskufallið lagði marga bæi í eyði og hrakti fólk úr nærliggjandi sveitum, meðal annars til Vesturheims.