Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Uppgötva sífellt fleiri manngerða hella við Odda

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Tugi ef ekki hundruð manns hefur þurft til að gera fjölda manngerðra hella við Odda á Rangárvöllum. Fornleifafræðingar grófu sig niður á stóran helli fyrir nokkrum dögum sem hrundi saman fyrir árið 1150.

Fornleifafræðingar eru í óða önn að grafa upp minjar við Odda á Rangárvöllum, sem er miðja vegu milli Hellu og Hvolsvallar. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur var að hreinsa burtu járnlag af gólffleti þegar Fréttastofu RÚV bar að garði í vikunni. 

Líklegt að sauðfé hafi verið geymt í hellunum

„Þessi bygging sem við erum í hérna, það er talið að hún sé reist í kringum 950. Og við vitum að þetta svæði er farið alveg úr notkun fyrir 1158,“ segir Lísabet. 

Þannig að það voru einhverjir sauðskinnsskór sem tipluðu hérna um?

„Já, mögulega. En við teljum að þetta hafi verið fyrir húsdýr,“ segir Lísabet. Við Hellirinn hefur væntanlega verið fyrir kindur. Og er elsta manngerða hús á Íslandi uppistandandi með þakinu og öllu saman.

Dældir í landslagi benda til hella

Hellirinn er langt frá því að vera sá eini á svæðinu. „Þetta er alveg gríðarlega stórt kerfi. Það eru alveg margir, margir metrar af hellum hérna úti um allt,“ segir Lísabet.

Úr lofti sjást vel dældir, líkt og skurðir í landslaginu og er talið að þar séu samfallnir hellar. 

„Þetta er náttúrulega allt manngert. Þannig að þetta eru ekki hellar sem mynduðust á náttúrulegan hátt,“ segir Lísabet.

Líklegt að tugir ef ekki hundrað þrælar hafi gert hellana

Viðbúið er hátt í hundrað manns hafi þurft til að gera hellana. 

Heldurðu að þetta hafi verið þrælar sem hafi byggt þetta?

„Maður veit það ekki, en maður veltir því fyrir sér,“ segir Lísabet.

Fyrir nokkrum dögum uppgötvaðist nýr hellir. 

„Þessi hellir sem við erum stödd í hrundi fyrir 1158. Við sjáum það út frá afstöðu jarðlaga og gjóskulaga,“ segir Lísabet. Hekla gaus árið 1158. „Við erum búin að vera bara að grafa sem sagt hrunið í burtu og markmiðið var að finna opið í þennan afhelli sem búið er að vera að rannsaka síðan 2018.

Hellaveggir geta hrunið yfir fornleifafræðinga

Af hverju ertu með hjálm hérna?

„Það er öryggisatriði. Þessir hellar eru grafnir í sandstein og á köflum er sandurinn eða sandsteinninn mun lausari í sér. Og það getur valdið því að það fellur eitthvað á okkur,“ segir Lísabet.

Enn ein forna niðurgrafna byggingin er ekki langt frá. Þar var gólfið ekki jafnt og því þurfti að grafa djúpt til að komast á botn.