Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þetta fækkar valkostunum sem eru í boði“

22.05.2022 - 15:30
Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
„Ég held það sé kominn sá tímapunktur núna að ég fari í mitt bakland í Framsókn og við ræðum þá stöðu sem upp er komin,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, greindi frá því á Facebook í dag að hún vildi bjóða Framsóknarflokknum til viðræðna við bandalag Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata. Með því undirstrikaði hún hollustu sína við bandalagið, og virðist hafa útilokað möguleikann á viðræðum með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki. 

„Þetta fækkar valkostunum sem eru í boði. Við höfum sagt það frá byrjun að við erum tilbúin að vinna með öllum flokkum sem vilja þær breytingar sem við töluðum um í kosningunum. Við höfum ekki útilokað neina flokka, en það hafa aðrir flokkar gert,“ segir Einar.

Liggur þá ekki beinast við að þessir fjórir flokkar hefji meirihlutaviðræður á næstu dögum?

„Ég held að við þurfum bara aðeins að anda ofan í kviðinn núna. Ég vil eiga samtal við mitt fólk og við höldum bara fund á morgun og tökum stöðuna þá.“

Ertu búinn að vera í sambandi við oddvita í þessu bandalagi í dag?

„Ég hef rætt við suma. Ég hef rætt við alla oddvita núna undanfarna viku og átt bara góð og heiðarleg samtöl við þá. Þessi samtöl hafa leitt til þessarar niðurstöðu núna.“

Einar segist ekki hafa gert kröfu um borgarstjórastólinn í neinum viðræðum.

„Við erum í þeirri stöðu að geta valið það hvort við förum í meirihluta eða minnihluta,“ segir Einar Þorsteinsson.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV