Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stórkostleg skemmtun en líka umbreytandi afl

Mynd: Íslenski dansflokkurinn / Íslenski dansflokkurinn

Stórkostleg skemmtun en líka umbreytandi afl

22.05.2022 - 14:00

Höfundar

Verkið BALL, í uppsetningu Íslenska dansflokksins, er gríðarlega pólítískt um leið og það er ekkert nema gleði, fögnuður og ást þar sem dansarar bjóða upp á alls konar konfektmola samkvæmt Nínu Hjálmarsdóttur gagnrýnanda.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Á sviðinu er hópur fólks sem á það sameiginlegt að elska að dansa. Þau eru öll sérfróð í sínum dansstíl, hvort sem það er bollywood, ballet, freestyle, samkvæmisdans, breikdans, k-popp dans eða það sem kallað er samtímadans. Við erum stödd á balli, og frá fyrsta augnabliki þegar dansararnir ganga inn eitt af öðru smita þau áhorfendur með gleði og tryllingslegri orku eins og við séum að stíga út úr heimsfaraldri og ætlum loksins að fá einhverja útrás.

Þetta verk, BALL, er í uppsetningu Íslenska dansflokksins og er samið af Alexander Roberts og Ásrúnu Magnúsdóttur ásamt dönsurunum. Hvert og eitt hefur samið sína senu með dansinum sem er þeim kær. Hverjum dansi fylgir oftast einhver saga, hvort sem hún er persónuleg saga dansarans, eða eins og þegar Sigurður Andrean sagði frá K-popp dansi sem er performatískt og pólítískt afl í Austur- og Suðaustur-Asíu, og meðal annars styður við réttindi kvenna og hinsegin fólks. Ein mjög eftirminnileg sena var endurgerð Ásdísar Ingvadóttur á goðsagnakenndri kóreógrafíu freestylehópsins Dust í Tónabæ 1996, en áhorfendur stóðu á öndinni yfir pottþéttum hörðum danshreyfingunum, tónlistinni, reykvélinni, ljósunum og nostalgíunni. Önnur sena sem stóð upp úr var í höndum Ingólfs Björns Sigurðssonar (Ingólfur Björn Sigurðsson), en fyrir fjörutíu árum var hann í mastersnámi í nútímadansi í Stokkhólmi. Ingólfur hefur mikla ástríðu fyrir reggítónlist og setti hann slagarann Jammin’ með Bob Marley á fóninn og dansaði af svo mikilli innlifun að ég klökknaði að sjá þennan mann gefa þessari menningu þetta vægi og þessa virðingu.

Dansarar íslenska dansflokksins voru líka með alls konar konfektmola á boðstólum og má þar nefna K-popp dansinn sem sprengdi skynfærin,- en líka absúrd og sprenghlægilega endurgerð Félixar U. Alejandre á Rómeó og Júlíu eftir Ernu Ómarsdóttur og Höllu Ólafsdóttur. Það verk er nú þegar afbygging sem slítur kanónuverkið gjörsamlega í sundur, og er því magnað hvernig Félix tókst að gera þessa afbyggingu af afbyggingu. En atriðið sem spilaði á alla mína hjartastrengi var þegar Luis Lucas leiddi allan hópinn með í kóreógrafíu og fögnuð á diskólaginu September eftir Earth Wind and Fire en honum tókst að heilla salinn upp úr skónum og skilja engan eftir ósnortinn. Luis er streetdansari, en það sést að hann hefur gríðarlega þekkingu á mismunandi stílum innan þeirrar danstegundar, sem á uppruna sinn frá Bandaríkjunum sem spunnið og félagslegt dansform á áttunda áratugnum, sem svar við svokölluðum hámenningardansi, en eflaust eiga hreyfingar streetdance sér mun dýpri rætur.

Í salnum myndaðist áþreifanleg stemming,- fólk hló, talaði, grét og brást líkamlega við því sem gerðist á sviðinu. Það var ekki auðvelt að sitja kyrr og standa ekki upp og dansa með - sérstaklega í lokasenunni sem var leidd af engum öðrum en goðsögn partýsenu Reykjavíkur, Hauki Valdimar Pálssyni. Manni eins og Hauk er ekki auðvelt að lýsa í fáum orðum, en þessi gógó-dansari er einstakur og eilífur eins og Cher, og hefur haft mikil áhrif á næturlífið hérna jafnt sem utan landsteinanna. Það var því stórkostlegt að láta hann leiða lokaatriðið, með laginu You Should Be Dancing eða Þú ættir að vera að dansa, en það er einmitt það sem áhorfendur fengu loks að gera.

En hvað gerist þegar diskó, ballet, breikdans og samtímadans fá jafn mikið pláss á sviði?

Verkið afmáir línurnar á milli þeirra sem eru atvinnudansarar í flokknum, og þeirra sem hafa tileinkað sér aðra dansstíla. Það afhjúpar þá menningarlegu strúktúra sem ríkja í kringum dans og afhjúpar um leið hvernig stofnanir eins og Íslenski dansflokkurinn og aðrar dansstofnanir taka þátt í að upphefja ákveðinn dans yfir annan.

Ímynd þess sem við köllum samtímadans eða Contemporary Dance á ensku er að hann sé einhvern veginn hlutlaus, hvítt blað, abstrakt,- en ekki bundinn menningarlegu samhengi þess sem dansar. Þetta orð, samtímadans, er því ekki einfaldlega bara dans sem endurspeglar samtímann. Í mastersritgerð sinni “The concept of contemporary dance” eða „Konseptið samtímadans” segir Selma Reynisdóttir að ákveðin fagurfræði verði til þess að man sér eitthvað sem samtímadans, eins og; rólegir líkamar, víð föt, erilsamar hreyfingar, hreyfa sig lárétt, hafa mismunandi hluti dreifða handahófskennt um rýmið, opnir munnar, abstrakt textar, hálf-opin hálf-lokuð augu, hinn ,,hlutlausi” samtímadans-andlitssvipur, íþróttaskó, íþróttasokka, vökva, ljós húðlituð nærföt, endurtekningar, o.s.frv. Það er eins og samtímadans geti verið hvað sem er, en ekki hvað sem er geti verið samtímadans.

Í ritgerð sinni Decolonising Nordic Dance skrifar Hanna Jarvinen að þó svo að það megi rekja mesta nýsköpun í samtímadansi á 20. öldinni til Afródíaspórudansa eða dansa sem hafa orðið til í kjölfar nýlenduvæðingarinnar, þá er þetta ekki viðurkennt í Arkívi danssögunnar. Í fræðabókum um dans eru svartir danshöfundar oftar en ekki settir í sérflokk til að leyfa hvítu kanónunni að virðast vera „hlutlaus” og gefa henni forgang í dansumræðunni. Dans sem á uppruna sinn að rekja utan Evrópumiðjunnar er því séður sem eþnógrafískur, tengdur frumbyggjum og ritúölum, en ef að hvítur danshöfundur notar þessar hefðir í sinni kóreógrafíu þá er það nýstárleg listsköpun.

Í sambandi við þetta þá skrifar Selma Reynisdóttir líka í mastersritgerðinni sinni hvernig henni var aldrei kennt í sinni dansmenntun og danssögumenntun að dansstíll Ruth St. Denis, sem er kölluð móðir nútímadans, hafi verið tekinn frá indverskum kvendönsurum. Hún talar um að vera í danstíma og finna fyrir leifum af dönsum sömdum af fólki sem hún veit að fá ekki þá viðurkenningu sem þau eiga skilið, eru skrifuð út úr sögunni. Selma tekur dæmi úr eigin dansmenntun um hvernig stofnanir eins og listaháskólar beita hliðvörslu sem ákvarðar hvað fær að vera samtímadans og hvað ekki,- til dæmis fær afró dans ekki þann heiður þó svo að hann sé dans sem er mikið stundaður og þróaður í dag, en hann fær ekki pláss í hugtakinu samtímadans.

Staðreyndin er sú að eina leiðin til að fá háskólamenntun í dansi er að gangast við samtímadansi og þeim gildum, sögu, fagurfræði og tækni sem tilheyra honum. Ef við gefum okkur að ung manneskju, sem hefur mikla hæfileika í öðrum dansstíl, eins og hip-hop dansi, langi til að fara í Listaháskólann og læra dans. Hún hefur þá engar tengingar inn í þessa stofnun og er jafnvel ólíklegt að hún myndi átta sig á Listaháskólanum sem möguleika fyrir sig. En jafnvel þó að hún kæmist alla leið í áheyrnarprufur, þá er það fyrsta sem hún þarf að gera áður en hún stígur á dansdúkinn, er að fara úr skónum. Skónum sem hún hefur alltaf dansað í.

Þetta var ágætis krókur sem er mér þó nauðsynlegur til að tala um verkið BALL vegna þess að það sem ég var að lýsa núna, elítisminn og forréttindin sem fylgja samtímadans, þetta er einmitt það sem verkið vinnur á móti. Það er Evrópumiðjun og rasískt að líta á samtímadans sem æðra listform af dansi en önnur, að einblína á svokallaða fegurð hlutleysisins. Sannleikurinn er sá að samtímadans hefur verið slitinn frá samhengi sínu, frá rótum sínum, hvort sem það eru afrískar rætur, hápólítískar stefnur sjöunda áratugsins eða eitthvað annað. Samtímadans er ekki hlutlaus, það er aðeins mjög árangursmikil ímyndarherferð sem hefur talið okkur trú um það. Þeir einu sem fá að vera ímyndað hlutlausir á sviði, abstrakt á sviði, eru þeir sem eru miðjusettir,- það er hvítir, ófatlaðir, sís kynja, gagnkynhneigðir, grannir líkamar. Sama má segja um önnur listform, það eru forréttindi að fá að „gera list um ekkert” svo vitnað sé í orð Ragnars Kjartanssonar um eigin list. Þessi narratíva, að vera hlutlaus, er ekkert nema innantóm og ímynduð mýta. Málið er að dans er svo miklu meira en þetta ráðandi form sem aðeins ákveðinn hluti samfélagsins fær að njóta. Dans er alls staðar og dansarar eru alls staðar, inni á hverju heimili. Það er það sem verkið Ball afhjúpar, að dans er menningarleg reynsla sem er bundin umhverfi þess sem dansar. Verkið spyrnir því á móti tvíhyggjunni; fagmennsku og amatörisma, eþnógrafíu og list, og gefur því sem áður var skrifað úr sögunni virðingarsess á sviði Borgarleikhússins. Verkið er gríðarlega pólítískt um leið og það er ekkert nema gleði, fögnuður og ást. Það býr til, um stundarsakir, tíma og rými þar sem hægt er að finna fyrir öðrum heimi, réttlátari heimi, heimi sem er lausari við hugmyndafræðilega og ráðandi strúktúra sem upphefja eitt yfir annað, gefa til eins og taka frá öðrum. BALL er því bæði stórkostleg skemmtun, meðal eftir samkomutakmarkanir,- en er líka umbreytandi afl sem hefur sterk áhrif. Ég vona að sem flestir fái tækifæri til að upplifa þetta Ball og smitast af stjórnlausri gleði, því við þurfum svo sannarlega á því að halda núna.

Tengdar fréttir

Pistlar

Tvíæringurinn Ólympíuleikar myndlistar

Pistlar

Ögrar Feneyjatvíæringnum sjálfum

Leiklist

Loksins fær ógeðslegur kraftur Tyrfings að njóta sín