Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lítill munur á börnum sem fá grænmetisfæði og kjöt

22.05.2022 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Kelli McClintock/Unsplash
Börn sem borða grænmetisfæði eru jafn vel nærð og kjötætur samkvæmt nýrri rannsókn. Markmið rannsóknarinnar var að skoða vaxtamun á börnum sem neyta kjöts og þeirra sem gera það ekki.

Sífellt fleiri velja að neyta ekki kjöts. Í rannsókninni, sem gerð var af Háskólanum í Toronto á tæplega 9.000 börnum á aldrinum sex mánaða til átta ára, var skoðað hvaða áhrif það hefur á líkamann. 

„Síðastliðin tuttugu ár hefur grænmetisfæði notið sífellt meiri vinsælda. Næringafræðilegar afleiðingar mataræðisins á börn hafa þó ekki verið rannsakaðar hingað til,“ segir Dr. Jonathan Maguire, kanadískur barnalæknir og einn höfunda rannsóknarinnar. 

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að börn sem alin eru upp á grænmetisfæði eru ekki frábrugðin börnum sem fá kjöt. Þau eru jafn há, með svipað BMI, sömu inntöku á járni og D-vítamíni og kólesteról-mælingar voru sömuleiðis eins. Börn sem neyta ekki kjöts eru þó líklegri til að vera undir kjörþyngd en sýndu engin áhættumerki um ofþyngd. Rannsakendur benda því á að það sé mikilvægt fyrir foreldra að skipuleggja gott og næringarríkt mataræði fyrir börn sem borða ekki kjöt. 

Rannsóknin byggði á gögnum sem var safnað á árunum 2008-2019. Öllum börnum sem tóku þátt í rannsókninni var fylgt eftir á þriggja ára tímabili, frá tveggja til fimm ára. Meðal þeirra níu þúsund barna sem tóku þátt í rannsókninni voru 250 grænmetisætur.  

Þjóðerni hefur áhrif á þyngd

Það að vera undir kjörþyngd getur verið merki um að barn sé ekki að fá öll réttu næringarefnin úr mataræði sínu. En rannsakendur þurftu einnig að taka tillit til þjóðernis barnanna. Mörg börn af asískum uppruna tóku þátt í rannsókninni og voru langflest þeirra með lægri BMI-stuðul en hinir þátttakendurnir. Þegar það var skoðað kom í ljós að það skipti engu hvort að þessi börn borðuðu kjöt eða ekki. 

„Þjóðerni spilar vissulega inn hvað varðar þyngd í þessari rannsókn,“ sagði Dr. Maya Adams við CNN. Hún er prófessor í læknisfræði við Stanford-háskóla.

Grænmetisfæði ætti að henta flestum 

Samkvæmt Dr. Maguire ætti grænmetisfæði að henta flestum. Líka börnum. „Grænmetisfæði er góður kostur því það inniheldur hollt mataræði, ávexti, grænmeti, trefjar, heilkorn og minni neyslu á mettaðrar fitu. Hins vegar hafa fáar rannsóknir hingað til verið gerðar á vexti og næringastöðu barna.“

Hann segir að þessi rannsóknin sé takmörkuð að því leyti að rannsakendur gátu ekki sjálfir gætt mataræðis þátttakendanna. Það hafi þar af leiðandi verið mjög misjafnt á milli barnanna, hvort sem þau borðuðu kjöt- eða grænmetisfæði.