Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Formaður Rauða krossins segir útlendingastefnuna harða

Mynd: RÚV / Skjáskot
Formaður Rauða krossins segir óásættanlegt að flóttafólki sé mismunað eftir því hvaðan það kemur. Verið sé að taka upp útlendingastefnu sem sé með þeim harðari sem þekkist, tengja þurfi saman dvalarleyfi og atvinnuleyfi.

Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í stjórnmálafræði er nýkjörinn formaður Rauða kross Íslands. Hún var gestur Silfursins í morgun þar sem meðal annars var rætt um fyrirhugaða brottvísun hátt í 300 umsækjenda um alþjóðlega vernd, en fólkið verður sent í flóttamannabúðir í Grikklandi.

Hún segir mismunandi viðhorf vera til flóttafólks eftir upprunalandi, það sé óásættanlegt. „Flóttafólk á að njóta sama réttar, sama hvaðan það kemur. Íslensk stjórnvöld hafa verið að herða sína útlendingastefnu. Við erum að taka upp stefnu sem er með því harðari, við erum að elta Norðurlöndin í þeirra hörðustu stefnum.“

Silja Bára segir að íslensk stjórnvöld nýti sér Dyflinnarreglugerðina í öðrum tilgangi en hún hafi verið ætluð.

„Hún var sett til þess að tryggja það að umsækjendur um alþjóðlega vernd fengju efnislega meðferð sinna umsókna einhversstaðar. Og við notum hana til að senda fólk í fyrsta land vegna þess að það er heimild, en ekki skylda.“ 

Sumir þeirra sem nú á að senda úr landi hafa dvalið hér í talsverðan tíma og fest hér rætur, vegna þess að ekki var hægt að senda þá til baka í faraldrinum. Að mati Silju Báru væri mannúðlegra að veita fólkinu dvalarleyfi og stuðla að meiri tengingu á milli dvalar- og atvinnuleyfis. 

„Við viljum auðvitað bara tryggja það að fólki sé tekið af mannúð hvort sem það kemur frá Afganistan eða Úkraínu. Fólk sem kemur annars staðar frá upplifir mismunun; upplifir að þeim sem koma frá Úkraínu sé betur tekið og við höfum alveg séð merki um það í okkar starfi.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir