Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjögurra ríkja ráðstefna hefst í Japan á þriðjudag

epa09964959 US President Joe Biden gestures as he boards Air Force One departing for Japan at Osan Air Base in Pyeongtaek, South Korea, 22 May 2022. Biden heads to Japan following a three-day visit to South Korea.  EPA-EFE/KIM HONG-JI / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Bandaríkjaforseti heldur í dag til fundar við ráðamenn í Japan. Hann er á ferð um Asíu til þess að treysta böndin og tryggja ítök Bandaríkjanna í álfunni. Nýkjörinn forsætisráðherra Ástralíu hyggst eftir helgina funda einslega með Bandaríkjaforseta auk leiðtoga Japans og Indlands í tengslum við ráðstefnu ríkjanna.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hittir Fumio Kishida forsætisráðherra og Naruhito Japanskeisara á mánudag en á þriðjudag hefst fjögurra ríkja ráðstefna þar sem leiðtogar Ástralíu og Indlands bætast í hópinn.

Ræddu auknar hernaðaræfingar

Ætlunin er að Biden greini á mánudag frá innihaldi viðamikils viðskiptasamnings við ríkin á svæðinu. Biden átti í gær fund með Yoon Suk-yeol, nýkjörnum forseta Suður-Kóreu, þar sem auknir hernaðartilburðir Norður-Kóreumanna voru meðal annars til umræðu.

Áður en Biden yfirgaf Suður-Kóreu sendi hann Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu afar einföld skilaboð: „Halló. Punktur.“

Embættismenn beggja ríkja töldu ekki útilokað að Kim reyndi að auka á spennu með kjarnorkuvopnatilraun meðan á heimsókn Bidens til Asíu stendur.

Bandaríkjaforseti lagði ríka áherslu á styrkingu tengsla við öll lýðræðisríki á svæðinu, ekki aðeins Suður-Kóreu og Japan. Biden og Yoon ræddu einnig mikilvægi þess að herða á heræfingum á Kóreuskaga, meðal annars svo bregðast megi við mögulegri kjarnorkuárás.

Forsætisráðherra Ástralíu býður til einkafunda

Anthony Albanese, nýkjörinn forsætisráðherra Ástralíu, kveðst ætla halda einkafundi með Biden Bandaríkjaforseta auk Fumio Kishida og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.

Þá verður sólarhringur liðinn frá því hann og ráðuneyti hans taka við embætti í Ástralíu. Á þriðjudag hefst ráðstefna þessarra fjögurra ríkja í Tókíó höfuðborg Japans.

Albanese greindi blaðamönnum frá þessu skömmu eftir að hann lýsti yfir sigri í kosningum í gær.

Hann segir að með fundunum geti hann sent þau skilaboð að breytinga sé að vænta á stjórnarstefnu Ástrala. Einkum eigi það við um loftslagsmál en Albanese hét því í kosningabaráttunni að herða aðgerðir til að draga úr kolefnislosun.