Bannað að kasta eggjum í spyrilinn

Mynd: RÚV / RÚV

Bannað að kasta eggjum í spyrilinn

22.05.2022 - 11:21

Höfundar

Í þættinum Gettu betur á bláþræði á föstudag mættust lið nýjustu tækni annars vegar og vísinda hins vegar. Þau svöruðu ekki einungis spurningum tengdum þema þáttarins heldur gerðu vísindalega tilraun á eggi sem þeim var gert að kasta í átt að spyrlinum, Guðrúnu Dís Emilsdóttur, án þess að hæfa hana.

Lið nýjustu tækni annars vegar og vísinda hins vegar öttu kappi í nýjasta þætti Gettu Betur á bláþræði. Í liði nýjustu tækni voru þau Magga Dóra Ragnarsdóttir, Steinunn Eldflaug Harðardótir og Guðmundur Jóhannsson. Í liði vísinda voru svo þau Máni Arnarson, Sprengju-Kata og Vísinda-Villi.

Ein af þrautum keppninnnar var nokkuð óvenjuleg. Það reyndi sannarlega á tækni- og vísindahugsun liðanna þegar fram fór eggjakast. Liðin fengu hvortsitt  eggið og alls kyns aukabúnað til að vinna með; límband, pappír, blöðrur og bönd. Þau fengu níutíu sekúndur til að hanna pakkningu utan um eggið sem síðan var kastað í boga yfir spyrilinn. Það átti að lenda óbrotið hinum megin og alls ekki í Gunnu Dís spyrli.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einbeittir fulltrúar vísinda

Lið nýjustu tækni notaðist við fjólublátt band sem þau sögðu að væri eins og ára sem verndaði það. Vísindin notuðust við uppblásnar blöðrur í sama lit. Annað eggið mölbrotnaði eftir ferðalagið í átt að spyrli en hitt komst heilt í gegnum þrautina.

Hér er hægt að horfa á Gettu betur á bláþræði í spilara RÚV.