Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Zelensky krefst þess að Rússar bæti allt tjón í Úkraínu

21.05.2022 - 03:20
Mynd með færslu
 Mynd: president.gov.ua
Rússnesk stjórnvöld þurfa að taka fjárhagslega ábyrgð á þeirri eyðileggingu sem herir þeirra hafa valdið í Úkraínu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Volodymyrs Zelensky Úkraínuforseta í kvöld. Hann segir að lokastig stríðsins verði afar blóðugt.

Zelensky sagði að Rússum bæri að greiða kostnaðinn við endurbyggingu hvers einasta heimilis, skóla, sjúkrahúss og annarra bygginga í landinu. Forsetinn krefst þess að útbúin verði sérstök áætlun, í samvinnu við ríki heims, um hvernig bótagreiðslum skuli háttað.

Zelensky greindi frá því að rússnesk eldflaug hefði grandað menningarmiðstöð í miðborg Lozovaya og sagði frá nýjum atlögum að borgunum Odesa, Poltava og Zhytomyr. 

Miklir bardagar standa nú um borgina Severodonetsk í Luhansk-héraði en rússneskar hersveitir hafa þyngt sókn sína að borginni úr öllum áttum. Þrír fórust þegar Rússar gerðu árás á skóla í borginni samkvæmt upplýsingum úkraínskra yfirvalda.

Yfir tvöhundruð manns, þar á meðal börn, höfðu leitað skjóls í skólanum. Zelensky segir að Donbas-svæði sé orðið víti líkast og varar við að lokastundir stríðsins verði afar blóðugar.

The Guardian greinir frá því að til standi að samþykkja lög í Rússlandi sem afnema aldurstakmark hermanna, sem talið er benda til skorts á fótgönguliðum. Nú geta Rússar á aldrinum 18 til 40 ára gengið í herinn og útlendingar frá 18 ára til þrítugs.