Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sara Björk Evrópumeistari í annað sinn

epa09963953 Lyon's Catarina Macario (2-L) celebrates after scoring her team's third goal during the Women's UEFA Champions League final soccer match FC Barcelona vs Olympique Lyon at the Allianz Stadium in Turin, Italy, 21 May 2022.  EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

Sara Björk Evrópumeistari í annað sinn

21.05.2022 - 16:20
Sara Björk Gunnarsdóttir náði í kvöld því afreki að verða fyrst Íslendinga til að vinna Meistaradeildina tvisvar er lið hennar Lyon bar sigurorð af ríkjandi Meistaradeildarmeisturum Barcelona 3-1.

Sara kom ekki við sögu en hún sneri nýverið aftur í liðið eftir barneignir. 

Áður höfðu einungis hún og Eiður Smári Guðjohnsen unnið Meistaradeildina í knattspyrnu. Sara Björk sigraði fyrrverandi liðsfélaga sína í Wolfsburg árið 2020 þar sem hún innsiglaði 3-1 sigur Lyon. Þá var Eiður Smári hluti af liði Barcelona sem vann Meistaradeildina árið 2009 með 2-0 sigri gegn Manchester United.  

Sara er einnig leikjahæsti Íslendingur í sögu Meistaradeildarinnar, með 63 leiki alls. Sara sneri aftur á völlinn í mars eftir fjarveru vegna barneigna og hefur tekið þátt í fimm leikjum með Lyon síðan. 

Miðjumaðurinn baráttuglaði spilaði sinn 63. leik í Meistaradeildinni er hún átti innkomu í 3-1 sigri gegn Juventus í 8-liða úrslitum fyrr á árinu.  

Ofurbyrjun Lyon 

Lyon byrjaði frábærlega en franski landsliðsfyrirliðinn Amandine Henry setti þrumufleyg utan af velli á 6. mínútu. Á 23. mínútu bætti norski markaskorarinn Ada Hegerberg við marki. Tíu mínútum síðar bætti hin bandarísk-brasilíska Macario við þriðja markinu og Barcelona stúlkur vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið. Alexia Putellas, einn helsti markaskorari Barcelona, klóraði í bakkann á 41. mínútu en lengra komust leikmenn Barcelona ekki. Barcelona hafði unnið 30 sigra af 30 mögulegum í spænsku deildinni, og 43 af síðustu 44 leikjum alls.  

Liðsmenn Lyon eru hins vegar engin lömb til að leika sér við þar sem þær hafa unnið keppnina alls 8 sinnum. Fyrirliðinn hávaxni Wendie Renard fer þar fremst í flokki, en hún hefur verið lykilmaður í öllum átta sigrunum hingað til. Framherjinn Eugénie Le Sommer og markvörðurinn Sarah Bouhaddi eiga einnig metið með henni. Lyon liðið hefur nánast verið í áskrift að úrslitum Meistaradeildarinnar síðastliðin ár, en hins vegar bjuggust flestir við sigri Barcelona þar sem liðið spilaði gífurlega vel í ár. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Upphitun: Bætir Sara Meistaradeildarmet sitt?