Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rússar skrúfuðu fyrir gas til Finnlands í morgun

21.05.2022 - 14:08
Erlent · Finnland · Rússland · Evrópa
epa09962984 A display shows gas prices of Finnish state-owned energy company Gasum in Helsinki Finland, 21 May 2022. Gasum said on 20 May that Russian state-owned energy corporation Gazprom had informed that flows of natural gas would be halted. Gazprom confirmed exports to Finland were halted on 21 May as Helsinki had refused to pay for its supplies in rubles. Halting gas supplies comes as Finland and Sweden were applying for NATO membership after Russia's invasion of Ukraine.  EPA-EFE/MAURI RATILAINEN
 Mynd: EPA-EFE - COMPIC
Finnar fá ekki lengur gas frá Rússlandi, eftir að rússneska Gazprom ríkisfyrirtækið skrúfaði í morgun fyrir gasflutninga yfir landamærin. Ástæðan er sögð vera að Finnar neiti að greiða fyrir gasið í rússneskum rúblum.

Gazprom skrúfaði fyrir gasið klukkan sjö í morgun að staðartíma, en það kom svosem ekki á óvart því fyrirtækið hafði sagt að þetta yrði gert, ef Finnar féllust ekki á að greiða fyrir í rúblum. Það er krafa sem rússnesk stjórnvöld hafa gert á orkufyrirtæki í Evrópu til að styrkja rúbluna og komast hjá viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Tveir þriðju af öllu gasi sem Finnar nota kom til þessa frá Rússlandi, um einn og hálfur milljarður rúmmetra af gasi, en finnska orkufyrirtækið Gasom segist geta fengið nægt gas eftir öðrum leiðum. Um leið og pípunni frá Rússlandi var lokað, var skipt yfir á gasleiðslu sem liggur frá Eistlandi til Finnlands.

Aðeins nokkrir dagar eru síðan Finnar ákváðu að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu, og litið er á þessa aðgerð Gazprom, sem er í ríkiseigu, sem viðbrögð stjórnvalda í Kreml við ákvörðun Finna. Um síðustu helgi hættu Rússar að selja Finnum rafmagn, en rafmagnið frá Rússlandi er þó aðeins um tíu prósent af því sem Finnar nota.

Fleiri vindmyllur og nýtt kjarnorkuver sem tekið verður í notkun í haust eiga að bæta upp allan mögulegan raforkuskort sem Finnar gætu orðið fyrir. Orkuverð hefur hins vegar verið á uppleið í Finnlandi, og þessar aðgerðir Rússa þykja líklegar til að ýta verðinu enn ofar.