Kveður Brynju eftir nær 70 ára samfylgd

Mynd: RÚV / RÚV

Kveður Brynju eftir nær 70 ára samfylgd

21.05.2022 - 11:33

Höfundar

Mörg rak í rogastans þegar þau tíðindi bárust að byggingavöruverslunin Brynja væri komin á sölu, enda hefur hún verið starfandi í rúmlega öld og löngu orðin eitt af kennileitum Laugavegarins. Brynjólfur H. Björnsson kaupmaður var 11 ára þegar faðir hans keypti búðina. Hann telur góðar forsendur fyrir því að rekstrinum sé haldið áfram.

Brynjólfur H. Björnsson hefur staðið vaktina í byggingavöruversluninni Brynju á Laugavegi síðan á 6. áratugnum, löngu áður en posar og greiðslukort komu til sögunnar. En nú eru að verða kaflaskipti, húsið og verslunin eru komin á sölu. „Ég náttúrulega er kominn á tíma en ég held að það sé allt í lagi að reka þetta áfram með þessu fyrirkomulagi sem við höfum verið með. Þetta hefur gengið allt í lagi.“  

Brynja er sannkölluð lykilverslun á Laugavegi, stofnuð árið 1919 en hefur verið á sama stað síðan 1930. Árið 1953 komst verslunin í eigu föður Brynjólfs en hún hefur þó strangt til tekið verið í eigu fjölskyldunnar frá upphafi. „Þannig séð já. Guðmundur Jónsson, sem stofnaði Brynju var hálfbróðir ömmu. Þau voru ofan af Akranesi. Hann kom hingað og stofnaði þessa búð.“

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Faðir Brynjólfs, sem hafði starfað um tíma hjá Guðmundi, kom aftur til starfa í Brynju um miðjan 5. áratuginn og eignaðist verslunina 1953. Brynjólfur hafði sinnt viðvikum í búðinni frá unglingsaldri en kom í fullt starf með föður sínum upp úr 1960 og tók við versluninni árið 1993.  

„Það hefur farið vel um okkur hérna á Laugaveginum. Hér allt í kring var fullt af smáverkstæðum, Vatnsstígnum, Klapparstígnum, Njálsgötunni, Grettisgötu og við vorum hér. Þetta var mjög gott mannlíf, bæði verkstæði og búð. Svo framlengdist þetta bara hér, við áttum húsið og vildum ekki fara úr miðbænum.“   

Brynja hefur marga fjöruna sopið, staðið af sér kreppu, heimsstyrjaldir, óðaverðbólgu, efnahagshrun, heimsfaraldur og margt fleira. Brynjólfur segist þó aldrei hafa óttast um afdrif verslunarinnar. „Svona hefur þetta gengið. Það syrtir í álinn en birtir til.“

Þegar Brynja var stofnuð árið 1919 stóð hún fyrst við Laugaveg 24. Árið 1930 var búðin flutt hingað á Laugaveg 29 og hefur staðið þar allar götur síðan. Byggingin var friðuð 2011 þannig að sama hvað framtíðinni líður verður húsið að minnsta kosti óbreytt. Eins og gefur að skilja stendur Brynjólfi ekki á sama um hver eignast húsið.    

„Það eru einhverjir búnir að bera í víurnar en ég veit ekki hvað verður úr því. Við vonum að þessi verslun verði ekki lögð af. Það sem kúnnarnir segja, Brynja má ekki hverfa.“