Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hlaupbangsar ekki sniðugir í stutt skokk

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Eftir þriggja tíma hlaup eða hjólreiðar getur verið skynsamlegt að borða hlaupbangsa en ekki er skynsamlegt að úða í sig sælgæti á styttri æfingum, segir doktorsnemi í íþróttanæringarfræði. Hlaupbangsar njóta vaxandi vinsælda meðal íþróttafólks. 

Atvinnuhjólreiðamaðurinn Ingvar Ómarsson sagði frá því í fréttum nýverið að hann fengi sér hlaupbangsa þegar færi í langa hjólreiðatúra. En skiptir máli hvers konar sælgæti er valið?

Er sniðugt að fá sér súkkulaðikaramellukúlur?

„Þú getur vandað valið ef þú ætlar að nota þetta sem orkugjafa í átökum. Þannig að þetta gæti orðið pínu klístrað og fests í gómnum og annað. Líka þarf að hafa í huga hvað er í sælgætinu upp á trefjainnihald og alls konar sem getur verið tormelt,“ segir Birna Varðardóttir, doktorsnemi í íþróttanæringarfræði. 

Hlaupbangsar svipaðir og orkugel en ódýrari

Birna segir að það geti verið óhentugt að vera með stóra mola eins og gúmmí-spælegg. Litlir hlaupbita eins og bangsar eru vinsælastir. 

„Það er þægileg stærð á þessu og einfalt að tína þetta í sig,“ segir Birna.

En er eitthvert vit í þessu?

„Við verðum pínu að horfa á þetta í samhengi hlutanna. Ef þú langvarandi átökum eða í mikilli og stífri þjálfun, þá er í rauninni, ef þú berð þetta saman við orkugel, íþróttadrykki og slíkt, þá er innihaldið ekki svo frábrugðið. Þannig að þetta eru bara einfaldar sykurtegundir og kolvetni sem líkaminn á mjög auðvelt með frásog og að nýta í þessum aðstæðum,“ segir Birna.

Eftir svona þriggja kílómetra skokk, er þá málið að fá sér 10-20 hlaupbangsa eða er það of mikið?

„Sko í þriggja kílómetra skokki þá myndi maður ekki endilega mæla með að þú tækir inn sérstaka orku á svona stuttri vegalengd. Við erum helst að tala um svona næringu og orkugjafa við lengri átök,“ segir Birna.

Ef ég skokka í þrjá kílómetra og úða þessu í mig á eftir, þá er ég ekki að fara að grennast?

„Ég held að þér muni bara líða illa af því, rétt hitnuð, að fara að tína þetta í þig. Þannig að það þarf líka að horfa á þetta út frá aðstæður og hverjar þarfnirnar eru hverju sinni,“ segir Birna. 
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV