Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Braust inn á Árbæjarsafn og Árbæjarlaug

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Karlmaður gekk berserksgang í Árbænum í Reykjavík í nótt. Hann braust meðal annars inn á Árbæjarsafnið, í Árbæjarlaugina og í tvö heimahús. Fyrstu tilkynningar um brot mannsins bárust um tíu leytið í gærkvöld en hann var ekki handtekinn fyrr en um klukkan þrjú í nótt.

Maðurinn byrjaði kvöldið á að stela rafmagnshlaupahjóli fyrir utan félagsmiðstöð í Árbænum. Hann braust svo inn í heimahús þar sem húsráðandi kom að honum inni í stofu hjá sér. Maðurinn stakk þá af en eina þýfið sem hann hafði með sér var gaskútur.

Mynd með færslu
 Mynd: Árbæjarsafnið
Kleppur á Árbæjarsafni.

Stuttu síðar braust hann inn á Árbæjarsafnið og framdi þar skemmdaverk. Braut rúður á einu húsi safnsins, Kleppi, spennti upp glugga og rótaði í munum inni í húsinu. Lögregla mætti á safnið eftir að öryggiskerfi safnsins fór í gang en maðurinn flúði vettvang. Hann gerði síðar tilraun til innbrots í annað íbúðarhús en húsráðandi kom að honum hálfum inn um svalahurð á íbúð sinni. 

Klippti á leiðslur í sundlauginni  

Að lokum braust maðurinn inn í Árbæjarlaug og fremur þar skemmdaverk. Í frétt vísis kemur fram að maðurinn hafi meðal annars farið um tækjakjallara laugarinnar og tekið leiðslur í sundur með þeim afleiðingum að ekkert heitt vatn rann í sturturnar í morgun. Lögregla kom stuttu eftir að öryggiskerfi laugarinnar fór í gang og handtók manninn. Maðurinn var þá blautur, hafði fengið sér bað í lauginni og gengið um pottana í öllum fötunum.  

Að sögn lögreglu var maðurinn í afar annarlegu ástandi. Hann hafi þó ekki náð að stela neinu af viti en rafmagnshlaupahjólinu var komið aftur í hendur eiganda síns. 

 

urduro's picture
Urður Örlygsdóttir