Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vísa á metfjölda úr landi

Mynd: RÚV / RÚV
Vísa á hátt í 300 umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi. Dómsmálaráðherra segir að fólkið hafi dvalið hér ólöglega og þetta hafi legið fyrir um tíma. Lögmaður fólksins segir dómsmál á dagskrá, sem gæti breytt stöðu fólksins. Aldrei hafa fleiri verið í þessum sporum í einu.

Fólkið kemur víða að og flestir verða sendir til Grikklands, óháð upprunalandi og samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur aldrei áður staðið til að vísa svo mörgum úr landi á sama tíma.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að ástæðan fyrir því að hópurinn sé svo fjölmennur sé að nú hafi flest  lönd afnumið reglur um sóttvarnir á landamærum, margir hafi neitað að fara í covid-próf og því ekki hægt að framfylgja úrskurðum um brottvísun fyrr en nú.

„Í heildina held ég að þetta sé í kringum 270 manns sem hafa dvalið hér, í raun, í ólögmætri dvöl,“ segir Jón.

Er einhugur innan ríkisstjórnarinnar um hvernig beri að standa að svona málum? „Þeir sem eru að framfylgja þessu eru að fara að íslenskum lögum. Þetta fólk er hér í ólögmætri dvöl, það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því.“

Það eru sérstakar aðstæður - það var enginn brottflutningur vegna faraldursins og þar af leiðandi hefur fólkið verið hérna lengi - hefur það engin áhrif? „Nei, ekki í þessu tilfelli. Þetta fólk hefur verið hérna á sína ábyrgð,“ segir Jón. „Þetta hefur legið fyrir gagnvart þessu fólki í langan tíma, um leið og þessar hindranir yrðu úr vegi, þá kæmi að þessum degi.“

Segir að dómsmál gæti breytt stöðunni

Magnús D. Norðdahl er lögmaður nokkurra úr hópnum og segir að þessar fullyrðingar séu ekki réttar.  Í hópnum séu margir sem ekki séu sakaðir um að hafa tafið mál sín. „Þar fyrir utan er annar hópur þarna undir sem hefur verið sakaður um að hafa tafið mál sín. Á þetta reynir núna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, það er ákveðið prófmál sem verður flutt 13. september næstkomandi. Þar reynir á hvort þessi hópur, sem er sakaður um að hafa tafið mál sín, hafi í raun og veru gert það.,“ segir Magnús. 

Hann segir að verði úrskurðurinn fólkinu í hag, myndi það breyta stöðunni. „Við gætum verið í þeirri stöðu í haust að það sé búið að framkvæma hér tugi, ef ekki hundruð brottvísana, sem eftir atvikum kunna að teljast ólögmætar.“

Hversu lengi hefur fólkið verið hér? „Það er bara mjög misjafnt, það eru aðilar þarna innan um sem hafa verið í meira en tvö ár, það er allur gangur á því. En sumir þessara aðila hafa náð hér góðum tengslum við land og þjóð, hafa fengið vilyrði um vinnu, hafa jafnvel eignast hér barn og myndað tengslanet. Þetta fólk er nú rifið upp með rótum og vísað úr landi og það er auðvitað mjög sorglegt.“