Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Töldu sér ekki virðing sýnd og tala við Sjálfstæðismenn

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eiga nú í óformlegum viðræðum um meirihlutasamstarf á Akranesi. Slitnað hefur upp úr viðræðum Framsóknar og Samfylkingar. Oddviti Samfylkingarinnar segir samtal flokkanna hafa orðið neikvætt og að flokknum hafi ekki verið sýnd virðing.

Telur flokknum ekki sýnd virðing eftir farsælt samstarf

Samfylkingin sleit óformlegum meirihlutaviðræðum við Framsóknarflokkinn í gærkvöld. Flokkarnir voru saman í meirihluta á nýliðnu kjörtímabili. Valgarður Lyngdal Jónsson, oddviti Samfylkingar segir það hafa verið vegna afarkosta Framsóknarflokksins um valdaskiptingu í bæjarstjórn sem átti að spegla hlutskipti flokkanna á liðnu kjörtímabili.

„Við hins vegar teljum kostinn sem að Framsókn bauð okkur núna lakari heldur en þann sem Framsókn fékk á síðasta kjörtímabili og eftir samskipti varðandi þessa afarkosti sem urðu, ja, bara frekar neikvæð samskipti og okkur fannst okkur ekki vera sýnd virðing eftir fjögurra ára farsælt samstarf og sáum okkur engan kost annan en að slíta viðræðunum.“

Segir Samfylkinguna hafa svikið heiðursmannasamkomulag

Ragnar Baldvin Sæmundsson, oddviti Framsóknar á Akranesi telur tillögu flokksins til Samfylkingarinnar hafa verið sanngjörn. Hann segir aðra ástæðu liggja að baki þess að slitnað hafi upp úr. 

„Fyrst og fremst náttúrulega þessi staðreynd að Samfylkingin var búin að hefja viðræður við Sjálfstæðisflokkinn á sama tíma og við höfðum handsalað heiðursmannasamkomulag ég og oddviti Samfylkingar um að vera ekki í viðræðum við aðra á meðan okkar viðræður færu fram.“ 

Samfylkingin hafi fundað með Sjálfstæðisflokknum á þriðjudag þrátt fyrir loforð um annað og þar með svikið samkomulagið við Framsókn. 

Líf Lárusdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins staðfestir að hafa fundað með Samfylkingunni á þriðjudag. Á fundinum hafi verið ljóst að viðræður stæðu yfir á milli Samfylkingar og Framsóknar og hafi hann farið fram á þeim forsendum að Sjálfstæðisflokkurinn yrði í minnihluta. 

Kemur í ljós í dag hvað verður úr viðræðum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks

Samfylkingin og Sjálfstæðismenn áttu fund í gærkvöld um mögulegt samstarf. 

„Það hefur ekkert farið neitt lengra, það kemur í ljós væntanlega í dag, við ætlum að hittast aftur.“ 

Hvernig var fundurinn með Sjálfstæðisflokknum?

„Bara alveg ágætur, það er mjög gott að tala við það fólk,“ segir Valgarður.  

Sævar Freyr Þráinsson hefur verið bæjarstjóri á Akranesi frá 2017, en þá var Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta í bæjarstjórn. Allir flokkarnir eru sammála um að vilja njóta krafta hans sem bæjarstjóra áfram.