Rússar hætta að senda jarðgas til Finnlands klukkan sjö í fyrramálið. Þetta staðfestir finnska ríkisfyrirtækið Gasum.
Ástæðan er sú að Finnar hafa hafnað kröfu Gazprom um að greiða fyrir gasið með rússneskum rúblum. Rúblukrafan var sett fram þann 1. apríl og hefur þegar verið lokað á flutninga gass til Póllands og Búlgaríu.
90 prósent af jarðgasi kemur frá Rússlandi
Gasum sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í vikunni að Rússar gætu hætt að senda jarðgas til Finnlands vegna þessa en það hefur nú verið staðfest. Gas er um fimm prósent af heildarorkunotkun Finna en 90 prósent af því kemur frá Rússlandi. Heimilin eru ekki sérstaklega háð rúsnessku gasi en þetta gæti komið illa niður á ýmsum iðnaði í landinu.
Gasum hyggst bregaðst við með því að flytja inn aukið magn af gasi frá Eistlandi í gegnum í leiðsluna, Balticconnector. Einhverjar atvinnugreinar höfðu nú þegar skipt yfir í olíu og fljótandi jarðgas. Gasum varar þó við að þrátt fyrir þessar aðgerðir megi búast við því að það verði skortur á gasi í landinu.