Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðið í flest störf í ferðaþjónustu á Norðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Flest fyrirtæki í ferðaþjónustu á Norðurlandi eru langt komin með að ráða til sín starfsfólk í sumar. Auknar launakröfur fylgja samkeppni um starfsfólk og víða útlit fyrir hærri launakostnað en áður. Fullbókað er orðið á flestum helstu gististöðum á Norðurlandi.

Eftir ládeyðu í ferðaþjónustu undanfarin tvö ár er mikil uppsveifla framundan. Henni hafa fylgt erfiðleikar við að ráða starfsfólk og víða um land er enn óráðið í fjölda starfa - en forsvarsmenn ferðaþjónustu á Norðurlandi bera sig nokkuð vel hvað þetta varðar.

„Það eru flestir að ná að manna“

„Staðan er þokkaleg, það eru flestir að ná að manna og þetta er að ganga betur en í fyrra. Vegna þess að núna vissum við með góðum fyrirvara að það yrði stórt sumar þannig að menn fóru að vinna í þessu strax upp úr áramótum. Miðað við að í fyrra á þessum árstíma vissum við ekki neitt hvað væri framundan,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Ekki gengið þrautalaust fyrir sig

Þetta hefur þó ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Það hefur þurft að leita meira að starfsfólki en oft áður og einnig reynst flókið að ná erlendum starfsmönnum aftur til landsins. Því eru einhver fyrirtæki enn að ráða í síðustu störfin. „Það er svona ákveðin hreyfing ennþá,“ segir Arnheiður. „Starfsfólkið er að ráða sig, það er síðan að færa sig aftur fyrir betri kjör. Ferðaþjónustan er í samkeppni við aðrar greinar um starfsfólk.“

Sjá fram á hærri launagreiðslur

Og í þeirri samkeppni hafa launakröfur aukist og hóteleigendur sem rætt var við og þurfa að ráða nýtt fólk til starfa segjast sjá fram á hærri launagreiðslur en áður.

Mjög stórt sumar framundan

Og Arnheiður segir mjög stórt sumar framundan. „Já, mjög stórt sumar. Við erum í rauninni að miða við 2019 sumarið, fyrir covid. Miðað við bókanir frá erlendum ferðaskrifstofum og miðað við hótelbókanir á svæðinu þá gætum við tekið við miklu fleirum, eftirspurnin er miklu meiri en framboðið.“