Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Næstum allt þungunarrof bannað í Oklahoma

Kevin Stitt, ríkisstjóri í Oklahoma
 Mynd: Wikimedia Commons
Löggjafarþing Oklahomaríkis í Bandaríkjunum samþykkti í gær lög sem banna þungunarrof allt frá getnaði, með örfáum undantekningum. Lögin eru þau hörðustu sem samþykkt hafa verið í málaflokknum vestra.

Þungunarrof verður þó heimilt eftir nauðgun eða sifjaspell hafi athæfið verið tilkynnt yfirvöldum og eins þyki heilsu móður ógnað. Það er hlutverk ríkisstjórans, repúblikanans Kevin Stitt, að staðfesta lögin sem þykir harla líklegt að hann geri.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna fordæmir lagasetninguna og segir þau nýjustu atlögu öfgafulls löggjafa að réttindum kvenna. Fleiri ríki, þar sem repúblikanar ráða ríkjum, hafa undirbúið löggjöf sem bannar þungunarrof og nokkur hafa þegar komið þeim á.

Þeirra á meðal eru Flórída, Mississippi og Texas. Bannið er ákveðið í ljósi væntanlegs dóms hæstaréttar Bandaríkjanna sem fellir úr gildi stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs byggðan á dómi réttarins frá árinu 1973. Niðurstöðunnar er að vænta undir lok júní.

Samkvæmt nýju lögunum í Oklahoma geta almennir borgarar lögsótt hvern þann sem aðstoðar á einhvern hátt við framkvæmd þungunarrofs. Lög með sams konar heimild voru samþykkt í Texas á síðasta ári.

Í seinasta mánuði fylgdi Oklahoma einnig í fótspor Texas með því að banna þungunarrof eftir að hjartsláttur greinist í fóstri sem er yfirleitt á um sjöttu viku meðgöngu.