Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Medvedev segir þverstæðu felast í kröfum Vesturlanda

epa04862502 Russian Prime Minister Dmitry Medvedev and Slovenian Prime Minister Miroslav Cerar (not pictured) deliver a press conference in Ljubljana, Slovenia, 27 July 2015. Medvedev is on a two-day visit to Slovenia.  EPA/IGOR KUPLJENIK
Dimitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Mynd: EPA
Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því að Rússar leyfi útflutning á úkraínsku hveiti sem er innlyksa í geymslum við strendur Svartahafs. Dmitry Medvedev, fyrrverandi Rússlandsforseti og nú æðsti yfirmaður öryggismála í landinu, segir að Vesturlönd geti ekki búist við áframhaldandi afhendingu matvæla frá Rússlandi hyggist ríkin viðhalda viðskiptaþvingunum sínum.

 „Þetta virkar ekki svona. Við erum ekki fábjánar,“ segir Medvedev. Hann segir mikla þverstæðu felast í kröfum Vesturlanda en segir Rússa geta haldið áfram að flytja út áburð og matvörur að því gefnu að Vesturlönd láti aðgerðir þeirra afskiptalausar.

„Lífið verður erfitt víða um lönd án birgða frá Rússlandi,“ segir hann og bætir við að illgresi eitt muni vaxa á ökrum bænda án rússnesks áburðar. Um það bil 30% alls hveitis sem jarðarbúar nota kemur frá Úkraínu og Rússlandi.

Twitter sérmerkir tíst með röngum upplýsingum

Stjórnendur samfélagsmiðilsins Twitter hafa ákveðið að merkja sérstaklega öll þau tíst sem auðsjáanlega innihalda rangar upplýsingar um stríðið í Úkraínu. Nýjar viðmiðunarreglur hafa verið samdar svo bregðast megi við upplýsingaóreiðu.

Allar færslur sem brjóta í bága við reglurnar verða faldar á bak við skilaboð frá Twitter þess efnis að þær innihaldi upplýsingar sem skapað geta aukna ógn við fólk sem þegar er í hættu statt. Yoel Roth, öryggisstjóri Twitter segir að smella þurfi á sérstakan hlekk til að sjá færsluna. 

Rússar sagðir hindra för flóttamanna 

Rússneskar hersveitir eru sagðar hindra för meira en eitt þúsund farartækja með úkraínska flóttamenn innanborðs, sem ætla til borgarinnar Zaporizhia. Hernaðaryfirvöld á svæðinu greina frá þessu og segja bíla fulla af konum og börnum sem sitji föst við varðstöðvar Rússa við borgina Vasylivka.

Yfirvöld segja fólkið peningalaust og geti því ekki greitt fyrir mat eða vatn. Myndband sem ríkisstjórn Úkraínu deildi á samfélagsmiðlinum Telegram sýnir langa bílalest kyrrstæða í vegarkanti. 

Um 1.700 hermenn í Mariupol sagðir hafa gefist upp

Líklegt þykir að um 1.700 úkraínskir hermenn sem höfðust við í Azov-stálverksmiðjunni hafi gefist upp fyrr Rússum. Þetta kemur fram í færslu breska varnarmálaráðuneytisins á Twitter.

Rússar hafa sjálfir staðhæft að þetta væri fjöldinn en Úkraínumenn hafa ekki viljað tjá sig um hann. Ráðuneytið segir hins vegar enn harla óljós hve margir hermenn eru enn í verksmiðjunni.

Eins segir ráðuneytið að þar sem útlit sé fyrir sigur Rússa gegn andstöðunni í Mariupol herði þeir enn sókn sína í Donbas-héraði. Hins vegar þurfi Rússar að auka við vopnabúnað sinn hyggist þeir hafa í fullu tré við harða mótstöðu Úkraínuhers.

Slík uppbygging segir breska varnarmálaráðuneytið að sé tímafrek og flókin. Þó beri að hafa í huga að rússneskir herforingjar eru undir miklum þrýstingi að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar sem geti orðið til þess að sótt verði fram fljótt og án nægilegs undirbúnings. 

Enn auka Bandaríkjamenn við fjárhagsaðstoð

Bandaríska öldungadeildin samþykkti í gærkvöld nærri 40 milljarða dala aðstoðarpakka fyrir Úkraínu. Fylgjandi pakkanum voru 86 þingmenn af 100, bæði Demókratar og Repúblikanar.

Pakkinn samanstendur af hernaðar-, fjárhags- og mannúðaraðstoð. Til stendur að senda fleiri vopn til Úkraínu, koma upp sjóði til að styðja ríkissjóð landsins og nýta á peningana til að koma í veg fyrir frekari raskanir á fæðuöryggi heimsbyggðarinnar vegna stríðsins.

Andrei Rudenko aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands segir stjórnvöld í Kreml reiðubúin til friðarviðræðna við Úkraínumenn um leið og þeir lýsi vilja til þess.

Viðræðum var slitið í apríl eftir að aðalsamningamaður Úkraínu sagði árangur útilokaðan í ljósi þess að Rússar vildu ekki viðurkenna framferði sitt í landinu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV