Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ekki tilefni til aðgerða vegna apabólu

20.05.2022 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnalæknir segir að ekki þurfi að hafa áhyggjur af apabólu hérlendis, enn sem komið er. Fylgjast þurfi vel með stöðunni enda veiran ný í okkar heimshluta. Hún er skyld bólusótt og algengust á afskekktum svæðum í Mið- og Vestur Afríku. Lítið er vitað um hversu skæð veiran kunni að vera.

Sjá einnig: Ástralir og fleiri rannsaka tilfelli apabólu

Níu tilfelli í Bretlandi

Tilfelli apabólu hafa nýverið greinst á Spáni og í Portúgal. Heilbrigðisyfirvöld á Ítalíu, í Frakklandi, Svíþjóð og Ástralíu rannsaka nú hvort apabóla hafi komið þar upp. Níu tilfelli hafa greinst í Bretlandi á síðustu dögum, sem staðfest samfélagssmit.

Þórólfur Guðnason hefur fylgst með fréttum af apabólunni í heimspressunni og þeim tilfellum sem greinst hafa í Evrópu. Aðspurður hvort heilbrigðisyfirvöld hér heima þurfi að hafa áhyggjur, segir sóttvarnalæknir:

„Ekki stórar áhyggjur en þetta er mjög óvenjulegt og eitthvað sem við þurfum að fylgjast með og vara fólk við og sérstaklega lækna, varðandi greininguna á þessu. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð og hefur ekki sést í Evrópu og Ameríku, þannig að þetta er eiginlega svolítið nýtt.“

En hverjar eru smitleiðir veirunnar?   

„Smitleiðir eru fyrst og fremst snertismit, fólk sem væri smitað gæti smitað aðra. Þetta eru líka öndunarfærasmit þannig að ef að smitaðir einstaklingar eru að koma erlendis frá, þá gætu þeir hugsanlega smitað aðra. Eftir því sem fréttir berast, þá er þetta ekki mjög smitandi, en við eigum eftir að fá betri upplýsingar um það hvernig veiran hegðar sér.“ 

Sjá einnig: Apabólutilfelli í Portúgal og á Spáni

Ekki alvarleg tilfelli sýkinga

Þórólfur segir þau tilfelli sem upp hafi komið ekki alvarleg, en mikilvægt sé að skoða betur þær sýkingar sem upp hafi komið.

„Sem betur fer virðist þetta ekki vera alvarleg sýking hjá fólki. Það er ánægjulegt því það er ekki til nein fyrirbyggjandi meðferð, engin bóluefni eða slíkt. En ég á nú ekki von á því að þetta verði að útbreiddum faraldri,“ segir sóttvarnarlæknir og bætir við að ekki sé tilefni til aðgerða að hálfu yfirvalda vegna apabólu, enn sem komið er.