Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Slúður og afbrýðissemi sögð kveikjan að skotárás

19.05.2022 - 09:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Maðurinn, sem var dæmdur í 8 ára fangelsi vegna skotárásarinnar á Egilsstöðum í ágúst á síðasta ári, ætlaði að ganga í hjónaband með sambýliskonu sinni þremur dögum eftir skotárásina. Rannsóknargögn og matsgerðir vörpuðu ljósi á að hann hefði verið ósáttur, stressaður og afbrýðisamur vegna samskipta sambýliskonunnar við fyrrverandi eiginmann sinn og barnsföður. Slúður um að hann hefði ógnað mági sínum með skammbyssu gerði útslagið.

Héraðsdómur Austurlandi dæmdi í apríl Árnmar Jóhannes Guðmundsson í átta ára fangelsi fyrir tvær tilraunir til manndráps, húsbrot, eignaspjöll, vopnalagabrot, brot í nánu sambandi og brot gegn valdstjórninni.  Árnmar játaði sök að hluta en neitaði alvarlegustu sakargiftunum.  Hann hefur þegar áfrýjað dómnum til Landsréttar.

Ætluðu að gifta sig 

Árnmar hótaði sambýliskonu sinni með því að beina að henni byssu. Þaðan fór hann að húsi fyrrverandi eiginmanns hennar og hugðist bana honum en þegar hann var ekki heima skaut hann á muni innandyra og á tvo bíla. Umsátrinu lauk þegar lögregla skaut Árnmar og særði hann.

Dómur héraðsdóms í málinu var birtur í vikunni en búið er að fjarlægja allan vitnisburð. Því er eingöngu hægt að lesa niðurstöðu dómsins.

Héraðsdómur segir að af framburði Árnmars og sambýliskonu hans verði ráðið að sambúðin hafi í meginatriðum gengið vel þótt að nokkur spenna hafi verið í sambandinu. Þau hafi meðal annars ætlað að gifta sig þremur dögum eftir skotárásina.

Héraðsdómur segir enn fremur að rannsóknargögn og matsgerðir tilgreini að í aðdraganda skotárásarinnar hafi Árnmar verið mjög ósáttur, stressaður og afbrýðisamur vegna tíðra samskipta sem hann ætlaði að hefðu verið milli sambýliskonu hans og fyrrverandi eiginmanns hennar og barnsföður. 

Slúður um hótun

Skömmu fyrir skotárásina hafi verið veruleg spenna milli Árnmars og sambýliskonu hans vegna orða sem eiginmaðurinn fyrrverandi lét falla í netsamskiptum og hún virðist hafa greint honum frá. 

Í dómnum kemur fram að það sem hafi helst komið við Árnmar hafi verið þau orð að hann hefði ógnað mági sínum með skotvopni.  Við meðferð málsins fyrir dómi sagði eiginmaðurinn fyrrverandi að þetta hefði aðeins verið söguburður.

Árnmar sagði að þegar hann fór að heimili fyrrverandi eiginmannsins hafi hann verið gríðarlega reiður, raun sturlaður af reiði. Í dómnum er meðal annars vitnað til skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu þar sem hann sagðist ekki geta útskýrt af hverju hann hefði tekið með sér skotvopn og skotfæri. Slíkt hefði farið gegn öllum hans gildum sem skotveiðimanns síðastliðin 30 ár. 

Árnmar hafnaði því fyrir dómi að hann hefði ætlað að bana eiginmanninum fyrrverandi. Hann hefði aðeins ætlað að láta hann finna fyrir því vegna lyganna um að hann hefði ógnað mági sínum með byssu og láta eiginmanninn fyrrverandi kynnast því að eigin raun hvernig það væri.

Ruddist inn í húsið með hlaðna haglabyssu

Héraðsdómur taldi hins vegar sannað að Árnmar hefði á þessari stundu borið mjög þungan hug til eiginmannsins fyrrverandi vegna umrædds slúðurs en ekki síður mikillar afbrýðissemi.

Það að hann hafi ruðst inn í hús mannsins með hlaðna haglabyssu renni stoðum undir þann málatilbúnað að hann hefði í raun tekið ákvörðun og sýnt þann ásetning í verki að ráða eiginmanninum fyrrverandi bana. Tilviljun ein hefði ráðið því að hann var ekki á heimili sínu og því hefði ekki reynt á hvort Árnmari tækist ætlunarverk sitt.

Héraðsdómur sakfelldi einnig Árnmar fyrir tilraun til manndráps gegn lögreglumanni. Héraðsdómur taldi að þegar Árnmar skaut að lögreglumanninum af 10 til 12 metra færi hefði honum hlotið að vera ljóst að líklegast væri að lífstjón gæti hlotist af vegna þekkingar sinnar á skotvopnum. 

Árnmari var gert að greiða eiginmanninum fyrrverandi tæpa milljón í skaðabætur vegna munatjóns og 1,5 milljónir í miskabætur.  Hann var einnig dæmdur til að greiða sambýliskonu sinni 750 þúsund krónur og tveimur sonum hennar og eiginmannsins fyrrverandi 2 milljónir. Þá þurfti Árnmar að greiða allan sakarkostnað, rúmar tíu milljónir.