Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lýsir fullum stuðningi við umsóknir Finna og Svía

epa09957997 US President Joe Biden (C), Prime Minister of Sweden Magdalena Andersson (R), and President of Finland Sauli Niinisto (L) speak to the media following their meeting on Finland's and Sweden's NATO applications in the Rose Garden of the White House in Washington, DC, USA, 19 May 2022. President of Turkey Recep Tayyip Erdogan stated in a video released earlier in the day that he will oppose the two countries joining NATO.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti fullum stuðningi við umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu þegar hann tók á móti leiðtogum ríkjanna í Washington. Hann sagði að aðild þeirra myndi styrkja bandalagið.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands, eru nú saman í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Á sameiginlegum fréttamannafundi á fjórða tímanum sagði Biden ljóst að ríkin tvö byggju yfir sterku lýðræði, öflugum her og stöðugu hagkerfi. Þau uppfylltu öll skilyrði fyrir NATO-aðild og gott betur.

Biden sagðist því stoltur lýsa yfir stuðningi við umsóknirnar og sagði að aðild Finnlands og Svíþjóðar myndi efla bandalagið. 

Andersson tók í sama streng og sagði ríkin standa vörð um frelsi, lýðræði og mannréttindi. Þá sagði Niinistö að Finnland yrði öflugt aðildarríki. Þjóðin tæki varnarmál alvarlega og byggi yfir einu öflugasta varnarliði Evrópu.

Samþykki allra aðildarríkjanna þrjátíu þarf til þess að ný ríki fái inngöngu í NATO. Tyrklandsstjórn hefur ein lagst gegn aðild Finna og Svía. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ítrekaði þá afstöðu í myndbandi á Twitter þar sem hann sagði Tyrki ætla að segja nei. Hann vill að Svíar sendi fólk sem Tyrkir álíta hryðjuverkamenn til Tyrklands.

Þórgnýr Einar Albertsson