Þetta kom fram í máli Antonio Guterres á ráðstefnu um matvælaöryggi í New York þar sem hann sagði að innrás Rússa í Úkraínu bætti enn á þann matvælaskort sem skapast hefði vegna hækkandi hitastigs og kórónuveirufaraldursins.
Guterres áréttaði að síðastliðin tvö ár hefði fjöldi þeirra sem búa við matvælaóöryggi tvöfaldast. Nú væru 276 milljónir manna í þeirri stöðu og að hungursneyð væri raunveruleiki meira en hálfrar milljónar manna.
„Stríðið í Úkraínu hefur magnað alla þessa þætti upp,“ sagði Guterres í ávarpi sínu á ráðstefnunni sem Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stýrir.
Guterres bætti við að tugir milljóna gætu bæst í hóp þeirra sem fæðuskortur blasir við. Slíku ástandi fylgdi vannæring og hungursneyð sem varað gæti um árabil.
Fyrir innrásina fluttu Úkraínumenn út 4,5 milljónir tonna af landbúnaðarafurðum mánaðarlega. Þaðan koma tólf prósent alls þess hveitis sem heimurinn þarfnast, fimmtán prósent alls kornmetis og helmingur allrar sólblómaolíu.
Eftir að Rússar lokuðu helstu höfnum Úkraínu er mun erfiðara að koma vörunum úr landi og því hvetur Guterres rússnesk stjórnvöld til að tryggja útflutning þaðan.
Það sé eina lausnin á matvælavanda heimsins en Guterres sagði jafnframt brýnt að rússnesk matvæli og áburður bærust á markaði heimsins. Stríðið og viðskiptaþvinganir gegn Rússum hafa skapað skort á framangreindum vörum og leitt af sér miklar verðhækkanir á mat og eldsneyti.