Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fjöldi kvartana vegna lýtaaðgerða í Svíþjóð

19.05.2022 - 14:03
Mynd: RÚV / Skjáskot
Að minnsta kosti 300.000 aðgerðir með bótoxi eða fylliefnum eru gerðar á ári hverju í Svíþjóð. Eftirlitið var hverfandi og litlar kröfur gerðar til þeirra sem framkvæmdu, þar til í fyrra, að ný lög voru sett. Síðan þá hafa meira en þúsund tilkynningar eða kvartanir borist til yfirvalda.

Á vorin, það er aðalvertíðin, sagði Amanda Siberg, hjúkrunarfræðingur í Stokkhólmi við Dagens Nyheter fyrir skömmu. Þá er allt uppbókað. Siberg vinnur við að sprauta bótoxi, vöðvaslakandi taugaeitri sem meðal annars er notað til að slétta úr hrukkum. Siberg hefur unnið við þetta í fjölda ára. Og er eins og áður segir hjúkrunarfræðingur. Þar til nýlega þurfti þó hvorki reynslu né menntun í heilbrigðisvísindum til að framkvæma inngrip eins og að sprauta bótoxi í andlit á fólki eða setja fyllingu í varir. Svipað og gildir um varafyllingar á Íslandi.

Markaðurinn fyrir útlitsaðgerðir eins og varafyllingar, bótox og skurðaðgerðir, hefur vaxið um 15-20 prósent á ári, undanfarin ár.

Og í skoðanakönnun sem gerð var fyrir nokkrum árum, sagðist tæplega þriðjungur Svía geta hugsað sér að fara í fegrunaraðgerð. Og helmingur þeirra sem voru innan við þrítugt.

Því miður ganga svona meðferðir ekki alltaf að óskum

Eins og hjá Juliu Humbla, 34 ára konu sem fékk fyllingar í varirnar fyrir fimm árum. Varirnar urðu ójafnar og því hafði hún samband við stofuna. Ákveðið var að sprauta hana aftur. Og svo einu sinni enn. Að lokum bólgnaði Julia upp í andlitinu, fékk útbrot á höndum og fótum og átti erfitt með andardrátt. Hún fór á bráðamóttöku þar sem læknar sögðu hana heppna að vera á lífi. Hálsinn hefði getað bólgnað upp, öndunarvegurinn lokast, og hún kafnað.

Julia er sannfærð um að varafyllingarnar hafi verið ástæða þess að hún varð veik. En stofan sem hún fór á hafnar því alfarið.

Sjálf segir hún hryllilegt að hún hafi lagt þetta á sig sjálf. En hún hafi orðið fyrir miklum áhrifum af áhrifavöldum og fyllingar í varir séu orðnar svo normalíseraðar. Allir séu að gera þetta.

Svipaðar sögur birtast reglulega í sænskum fjölmiðlum. Stundum af afleiðingum fyllinga, stundum bótoxi, stundum annarra aðgerða sem gerðar eru til að breyta einhverjum þáttum í útliti fólks.

Fjörutíu nefaðgerðir ollu skaða

Fyrir nokkrum árum var til dæmis fjallað um fjörutíu manns sem höfðu orðið fyrir skaða eftir skurðaðgerðir á nefi, á einkarekinni skurðstofu. Í sumum tilvikum átti fólkið erfitt með að anda eftir aðgerðina. Aðrir urðu fyrir taugaskaða eða beinbroti í andliti. Einn sagði öndunarveginn í nefinu svo þröngan að það væri eins og að anda í gegnum sogrör. Viðkomandi vaknar enn oft á nóttunni vegna öndunarerfiðleika. Og segir ekki gaman til dæmis að fara út að borða og þurfa að tyggja með opinn munn.

Þessir sjúklingar og fleiri leituðu til Karolínska sjúkrahússins sem tilkynnti skurðlækninn til heilbrigðisyfirvalda. Hann var að lokum sviptur lækningaleyfi.

Villti á sér heimilidir og vandaði sig lítt

Viðlíka sögur eru þó sífellt að koma upp, meðal annars af skurðstofu í Gautaborg, þar sem starfar læknir sem er einfaldlega lélegur. Hann er ekki sérfræðingur í lýtalækningum, þótt hann segist vera það og virðist ekki hafa vandað sig. Ein þeirra kvenna sem leituðu til hans og sænska ríkissjónvarpið hefur rætt við, segir að læknirinn hafi eyðilagt líf sitt. Eftir aðgerð hjá honum var hún með brjóst sem voru misstór; of mikil fita var tekin af mjöðminni á einum stað. Og í handarkrikanum, þar sem nú er eins og gat, og hefur valdið skaða á sogæðakerfinu.

Ristruflanir eftir typpastækkun

Og svo var það strákurinn sem fór í typpastækkun, rétt rúmlega tvítugur. Lýtalæknirinn sem framkvæmdi aðgerðina hafði farið á eins dags námskeið í að því hvernig maður sprautar ákveðnu efni í getnaðarlim svo hann virðist stærri. Aðgerðin tókst illa og maðurinn hefur glímt við ristruflanir síðan.

Í viðtali við sænska ríkissjónvarpið lýsti hann furðu sinni á að svona gæti gerst. Það virtist ríkja algjör lögleysa þegar kæmi að fegrunaraðgerðum.

Sú lýsing virðist að mörgu leyti rétt. Það voru litlar kröfur gerðar um ákveðnar fegrunarmeðferðir og eftirlit með þeim.

Reynt að koma á þetta böndum

Þeim lögum hefur nú verið breytt. Fyrir um ári tóku gildi ný lög sem kveða á um að læknar sem gera inngrip í fegrunarskyni, þurfi að vera sérhæfðir í slíkum aðgerðum. 
Þar er einnig fjallað um meðferðir á borð við varafyllingar og bótox. Í nýju lögunum eru slíkar meðferðir flokkaðar sem heilbrigðisþjónusta og gerð krafa um að henni sé sinnt af heilbrigðisstarfsfólki, fólki með starfsleyfi sem læknar, tannlæknar eða hjúkrunarfræðingar. Með tilkomu nýju laganna er hægt að tilkynna misbresti til stofnunar sem hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Í fyrra bárust rúmlega tólf hundruð tilkynningar vegna útlitsaðgerða. Átján manns hafa í framhaldinu verið kærðir til lögreglu.