Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Vonbrigði að þau skyldu svíkja okkur“

Mynd með færslu
 Mynd: l-listinn.is - RÚV
Fulltrúi L-listans á Akureyri segir mikil vonbrigði að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafi svikið flokkinn í meirihlutaviðræðum þeirra. Þeir hafi leitað til annarra flokka þrátt fyrir heiðursmannasamkomulag um að gera það ekki.

Heiðursmannasamkomulag um að ræða ekki við aðra

Formlegar viðræður flokkanna þriggja byrjuðu daginn eftir kosningar en var slitið í gær og fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eiga fund með Samfylkingunni og Miðflokknum í dag til að ræða mögulegt meirihlutasamstarf.

Halla Björk Reynisdóttir, fulltrúi L-listans og forseti fráfarandi bæjarstjórnar, segir það hafa komið á óvart þegar hún frétti annars staðar frá að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn væru byrjuð að ræða við aðra flokka.

„Að mínu mati gerðist ekkert sérstakt. Við vorum bara að hefja viðræður og ég taldi að við ættum eftir að eyða svolitlum tíma í það en þau virtust vera komin annað, í aðrar viðræður og vildu slíta viðræðum eftir fundinn. Við vorum búin að gera heiðursmannasamkomulag um að tala ekki við aðra og töldum okkur enn þá vera í viðræðum,“ segir Halla.

Þóttu með of miklar kröfur

Halla Björk segist hafa fengið þær upplýsingar að L-listinn hafi komið að borðinu með of miklar kröfur sem hún tekur ekki undir. Eins að hinum flokkunum hafi þótt óþægilegt að L-listinn væri stærri flokkur, en hann fékk flesta menn kjörna eða þrjá. L-listi hafi lýst yfir áhuga á embætti forseta bæjarstjórnar sem og formanns bæjarráðs en það hafi alls ekki verið krafa.

Þetta hljóta að hafa verið mikil vonbrigði fyrir ykkur?

Jú, það eru mikil vonbrigði að þau skyldu svíkja okkur. Hitt er svo annað með hverjum fólk vill vinna, það er auðvitað eitthvað sem við vorum alveg viðbúin að við værum ekki endilega kölluð að borðinu en við vorum komin þarna í ákveðnar viðræður og við hefðum viljað að það samkomulag héldi,“ segir Halla.